Gott hljóð í Bjarna Benediktssyni

Morgunblaðið birti 20. ágúst 2015 langt og rækilegt viðtal við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Það er mikið fagnaðarefni, sem Bjarni sagði, að við skulum nú vera að gera upp skuldir okkar og verða laus allra mála við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðra aðila. Þetta eru tímamót og gott hljóð að vonum í Bjarna. Raunar skildi ég aldrei, hvers vegna tekið var lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, því að það stóð aðeins óhreyft inni á reikningi í New York, en bar stórfé í vexti.

Bjarni hefur staðið sig vel sem fjármálaráðherra. Það, sem hann segir um Rússlandsviðskiptin, er allt mjög skynsamlegt líka. Auðvitað eru Íslendingar ekki að breyta um neina stefnu í utanríkismálum, eins og mælskugarpar vinstri manna segja, af því að þeim hentar það. Ísland er í sveit vestrænna ríkja. En það er fámennt ríki og veikt og þarf á öllu sínu að halda. Þess vegna hefur það verið meginatriði í stefnu þess alla tíð að einbeita sér að því að selja fisk, ekki að hinu að láta á sér bera.

Nafni Bjarna og frændi, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, sagði eitt sinn, að virðing smáþjóða á alþjóðavettvangi stæði í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra á alþjóðaráðstefnum. Eru þeir, sem telja, að Ísland eigi að láta á sér bera á alþjóðaráðstefnum og helst að bjarga heiminum með hátíðlegum orðum, af því að þeir halda, að þessi orð séu ódýr, ekki hliðstæðir útrásarvíkingunum, sem töldu sig öllum öðrum snjallari í fjárfestingum, en hugsuðu lítt um áhættuna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband