Hugleiðing Baldurs Þórhallssonar

Baldur Þórhallsson birtir hugleiðingu um utanríkismál á Facebook síðu sinni. Ýmsar athugasemdir má gera við hana. Hér nefni ég fimm:

1. „Það að vax­andi hóp­ur áhrifa­manna í Sjálf­stæðis­flokkn­um – stærsta og áhrifa­mesta stjórn­mála­flokki lands­ins – krefj­ist þess að mörkuð verði ný ut­an­rík­is­stefna verður að taka al­var­lega því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur markað ut­an­rík­is­stefnu lands­manna allt frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar.“ Hér talar ekki óhlutdrægur fræðimaður, heldur fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og talsmaður Evrópusambandsins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki breytt um stefnu. Hún er fólgin í vestrænu samstarfi. En vestrænt samstarf fer ekki fram innan Evrópusambandsins, heldur Atlantshafsbandalagsins. Engir ráðamenn Sjálfstæðisflokksins hafa reynt að breyta utanríkisstefnunni. Það er áróðursbrella Samfylkingarinnar og Evrópusambandssinna, sem hafa staðið höllum fæti, allt frá því að Grikklandsmálið kom til sögunnar. En Íslendingar eiga að einbeita sér að því að selja fisk.

2. „Þessi fram­ganga rúss­neskra ráðamanna er ein stærsta ógn­in sem smærri ríki Evr­ópu hafa staðið frammi fyr­ir frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar.“ Ég er sammála honum um þetta. En Evrópusambandið er pappírstígur, og við eigum ekki að flækja okkur inn í aðgerðir þess. Ef einhverjir geta mætt rússneskum ráðamönnum, þá eru það Bandaríkjamenn, sem bera Atlantshafsbandalagið uppi.

3. „Íslensk stjórn­völd hafa allt frá því að við feng­um stjórn ut­an­rík­is­mála í okk­ar hend­ur 1. des­em­ber 1918 lagt mesta áherslu á sam­vinnu við lýðræðis­ríki og alþjóðalög og hefðir sem styrkja sjálf­stæði lít­illa ríkja. Þetta var raun­in bæði meðan að landið var ,,hlut­laust’’ og eft­ir að það gerði her­vernd­ar­samn­ing við Banda­rík­in árið 1941.“ Þetta er rangt (og þá á ég ekki við málvilluna „meðan að“). Íslendingar fengu ekki forræði utanríkismála 1918 nema að takmörkuðu leyti. Danir fóru með utanríkismál í umboði Íslendinga allt til 1940. Ísland gat verið hlutlaust, af því að það var í skjóli breska flotans, eins og Jónas Jónsson frá Hriflu útskýrði þá best og skildi. Og Íslendingar lögðu mesta áherslu á að selja fisk, eins og ég hef rakið ýmis dæmi um.

4. „Lít­il ríki eiga mjög erfitt með að fá stór ríki til að fara að kröf­um þeirra en geta í krafti ákvæða um sam­eig­in­lega ákv­arðana­töku haft áhrif inn­an svæða- og alþjóðastofn­ana.“ Hann á væntanlega við Kýpur og Grikkland? Það hefur heldur betur komið í ljós síðustu misserin, hversu mikið tillit er tekið til þeirra í Evrópusambandinu. 

5. „Ísland varð sjálf­stætt og gat stækkað land­helg­ina vegna þess að stærri ríki féllust á það - og alþjóðalög og hefðir styrktu kröf­ur Íslend­inga.“ Þetta er rangt. Hefðir styrktu ekki kröfur Íslendinga (Bretar höfðu veitt hér frá 1412), en alþjóðalög voru að þróast í sömu átt og Íslendingar vildu. Og Íslendingar gátu stækkað landhelgina, af því að grannþjóðirnar vildu að lokum ekki beita okkur svo miklu valdi, að Ísland færi úr Atlantshafsbandalaginu. Bandaríkjamenn (og Norðmenn) neyddu Breta til að viðurkenna landhelgina. Það var hernaðarlegt mikilvægi Íslands, sem réð úrslitum (þótt við hefðum að lokum fengið 200 mílna landhelgi, en miklu síðar og ef til vill of seint).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband