Drengskapur tveggja Breta

Tveggja viðburða í Háskóla Íslands verður lengi minnst. Hinn fyrri var málþing undir heitinu „Icesave. Ýmis álitaefni“ í hátíðasal 2. apríl 2011, nokkrum dögum fyrir síðari þjóðaratkvæðagreiðsluna um málið. En álitaefnin voru ekki fleiri en svo, að allir frummælendur voru hlynntir Icesave-samningnum: Þórólfur Matthíasson, Gylfi Magnússon, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, Gylfi Zoëga og fleiri. Þegar ég frétti af þessum fundi, bauðst ég skriflega til að hafa framsögu og reifa rökin gegn samningnum. Mér var ekki svarað.

Síðari viðburðurinn var fyrirlestur Davids Milibands um „framtíð Evrópu“ í hátíðasal 26. september 2012. Miliband var utanríkisráðherra Verkamannaflokksstjórnarinnar, sem hafði sett hryðjuverkalög á Íslendinga haustið 2008 og reynt að svelta þjóðina til að greiða skuld, sem hún hafði ekki stofnað til. Fyrir fyrirlesturinn hafði Miliband tilkynnt í viðtali í Morgunblaðinu, að hann vildi ekki ræða samskipti Íslendinga og Breta haustið 2008. Virtu fundargestir í hátíðasal það og spurðu aðeins meinlausra spurninga, jafnvel kunnir orðhákar eins og Mörður Árnason.

dan-hannan.jpgÞótt sumir Íslendingar hefðu kysst á vöndinn, voru til Bretar, sem töldu ódrengilegt að hafa beitt honum á fámenna og varnarlausa vinaþjóð. Daniel Hannan, rithöfundur og Evrópuþingmaður fyrir Íhaldsflokkinn, skrifaði grein í The Times 15. október 2008, þar sem hann sagði ófyrirgefanlegt að hafa beitt hryðjuverkalögunum á Íslendinga. Hann benti á, að Gordon Brown hefði réttlætt beitingu þeirra með því, að Ísland ætlaði að hlaupast undan skuldbindingum sínum. En íslenskir ráðamenn hefðu sagst ætla að standa við allar skuldbindingar sínar. Árásin á Ísland væri merki um hugleysi, ekki hugrekki.

conference1_07_10_2013.jpg

Dr. Eamonn Butler, forstjóri Adam Smith-stofnunarinnar og höfundur fjölmargra rita um stjórnmál og efnahagsmál, baðst afsökunar á framkomu Verkamannaflokksstjórnarinnar fyrir hönd breskra Íslandsvina á bloggi sínu á vefsvæði Telegraph 16. október 2008. Hann benti á, að bresk stjórnvöld hefðu að ástæðulausu lokað KSF, dótturfélagi Kaupþings í Lundúnum, því að deilan við íslensk stjórnvöld snerust aðeins um innstæður í útibúi Landsbankans í Bretlandi. Um þá Hannan og Butler á íslenska orðið „drengskapur“ best.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júní 2015. Á neðri myndinni er dr. Eamonn Butler lengst t. v. fremst, á ráðstefnu í Reykjavík 7. október 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband