Af mannavöldum?

GoreHaustið 1981 var ég nýkominn til Bretlands í framhaldsnám. Þá birtu 364 kunnir hagfræðingar yfirlýsingu um, að stefna Margrétar Thatchers í efnahagsmálum væri röng, enda hlyti hún fyrr en síðar að hverfa frá henni. Í neðri málstofunni skoraði leiðtogi Verkamannaflokksins á járnfrúna að nefna tvo hagfræðinga, sem væru sammála henni. „Alan Walters og Patrick Minford,“ svaraði hún. Ég var síðar staddur þar, sem Thatcher rifjaði þetta upp hlæjandi og sagði, að sem betur fer hefði andstæðingur sinn aðeins beðið um tvö nöfn. Hún hefði ekki getað nefnt fleiri! Thatcher hélt fast við stefnu sína, sem reyndist vel. Vorið 1987 var ég aftur sestur að á Íslandi. Þá birtu þau Guðrún Pétursdóttir líffræðingur, Ásta Þorleifsdóttir jarðfræðingur og Guðni Jóhannesson verkfræðingur skýrslu, sem útvarpið kynnti sem stórfrétt. Hún var um það, að Tjörnin hyrfi líklega á þremur vikur, yrði byrjað að grafa fyrir ráðhúsi í norðvesturhorni hennar. Davíð Oddsson borgarstjóri sinnti þessu hvergi, ráðhúsið reis, og enn er Tjörnin á sínum stað.

Ég lærði að hafa ekki sjálfkrafa vísindamanna ráð, þótt þeir fari margir saman. Vísindi eru ekki kóræfing, heldur frjáls samkeppni hugmynda. Þau telja ekki nef, heldur skoða gögn. Þetta á við um þá þríþættu tilgátu, að jörðin sé að hlýna, það sé mannkyni að kenna og á valdi þess að gera eitthvað við því. Óskarsverðlaunahafinn Al Gore krefst þess, að við gerbreytum umsvifalaust lífsháttum okkar. Ég er ekki sérfræðingur í loftslagsfræðum fremur en Gore. En í nýrri heimildamynd, „Blekkingarnar miklu um hlýnun jarðar,“ sem frumsýnd var í bresku sjónvarpi 8. mars síðastliðinn, tala vísindamenn, sem efast um þessa tilgátu. Þeir vefengja fæstir, að jörðin hafi hlýnað um skeið. En þeir benda á, að loftslag tekur sífelldum breytingum. Óvíst sé, að menn ráði úrslitum með losun koltvísýrings og ígildis hans út í andrúmsloftið. Sem kunnugt er mynda þessi efni ásamt vatnsgufu eins konar hjúp í kringum jörðina, sem minnkar varmaútgeislun hennar, svo að hún er nógu hlý til að vera byggileg.

Ein röksemd efasemdamanna er, að breytingar á hitastigi jarðar virðast ekki standa í neinu sambandi við losun manna á koltvísýringi. Um og eftir landnám á 9. öld var til dæmis hlýindaskeið hér úti á Dumbshafi. Vatnajökull var miklu minni en nú, tvískiptur og kallaðist Klofajökull. Þá losuðu menn sáralítinn koltvísýring út í andrúmsloftið. Síðan tók við litla ísöldin svonefnda um 1500-1800. Síðustu hundrað árin hefur hitastig sveiflast til, þótt heldur hafi það fikrað sig upp á við (um á að giska 0,6 stig). Til dæmis var hlýindaskeið árin 1930-1940, en síðan kólnaði fram undir 1980, þótt losun á koltvísýringi hafi þá stóraukist. Stuðningsmenn tilgátunnar um hlýnun af mannavöldum geta auðvitað (og hafa) skýrt þessa kólnun með öðrum áhrifaþáttum, en þá viðurkenna þeir um leið, að fleira ráði loftslagsbreytingum en losun manna á koltvísýringi.

Önnur röksemd efasemdamanna er, að losun manna á koltvísýringi veldur ekki miklu um gróðurhúsaáhrifin. Vatnsgufa er 98% gróðurhúsalofttegunda. Þegar lífverur anda frá sér eða rotna og þegar eldfjöll gjósa, streymir meiri koltvísýringur út í andrúmsloftið en vegna brennslu olíu eða kola. Jafnvel þótt einhver gróðurhúsaáhrif kunni að vera af mannavöldum, mun síðan breyta sáralitlu um þau, þótt reynt sé að minnka losun á koltvísýringi, þótt það sé raunar æskilegt af öðrum ástæðum. Þriðja röksemd efasemdamanna er, að breytingar á hitastigi jarðar virðast standa í beinu sambandi við virkni sólar. Koma geislar úr öðrum sólum úti í geimi og vindar frá okkar sól þar við sögu í flóknu ferli. Stuðningsmenn tilgátunnar um hlýnun af mannavöldum geta auðvitað (og hafa) bent á, að nákvæmar mælingar á þessu eru ekki til langt aftur í tímann. En hið sama er að segja um tilgátu þeirra. Sólvirknikenningin hefur líka þann kost, að hún nær til fyrri loftslagsbreytinga (ef hún reynist rétt), því að sólin hefur alltaf haft áhrif, en mannkyn aðeins nýlega.

Enginn dregur gróðurhúsaáhrifin í efa. Þeirra vegna er jörðin byggileg. En spurningin er, hvað mennirnir hafa gert og geta gert. Hugsanleg svör á að rannsaka fordómalaust í stað þess að búa um sig í skotgröfum.

Fréttablaðið 30. mars 2007


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband