Kúba Norðursins

Eyjan Kúba í Karíbahafi, sem er svipuð Íslandi að flatarmáli, en byggð ellefu milljón manns, gegnir örlitlu hlutverki í stjórnmálasögu Íslendinga. Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans sáluga, málgagns Alþýðubandalagsins, var boðinn til Kúbu sumarið 1962. Þar sótti hann tvo fjöldafundi með Castro, sem þrumaði samfleytt klukkutímum saman. Magnús hitti líka byltingarforingjann Che Guavara, sem kvaðst hafa lesið Atómstöðina eftir Laxness.

Ýmsir íslenskir sósíalistar, til dæmis Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og Páll Halldórsson eðlisfræðingur, stunduðu á öndverðum níunda áratug sjálfboðavinnu fyrir Castro á sykurekrum Kúbu og skeyttu því engu, að hinn málskrafsmikli einræðisherra bar ábyrgð á dauða þrjátíu þúsund manna, geymdi stjórnmálafanga þúsundum saman í þrælakistum, en rösk ein milljón manna hafði flúið landið, tíundi hluti þjóðarinnar, flestir á litlum bátum, og var mælt, að þeir hefðu greitt atkvæði með árunum.

Áður en Alþýðubandalagið hneig undan fargi fortíðar sinnar haustið 1998 og flokksmenn gengu ýmist í Samfylkinguna eða Vinstri græna, lét það verða sitt síðasta verk að þiggja boð kúbverska kommúnistaflokksins um að senda tvo fyrrverandi formenn, þau Margréti Frímannsdóttur og Svavar Gestsson, til Kúbu ásamt fleira fólki. Hugðist sendinefndin hitta Castro, en hann gaf ekki kost á því, og þótti þetta sneypuför. Löngu síðar gerðist Margrét fangelsisstjóri á Íslandi, en Svavar aðalsamningamaður í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Sneri hann sumarið 2009 heim með samning, sem hefði leitt Íslendinga í skuldafangelsi um ókomna tíð.

Tveir háskólaprófessorar mæltu af miklum móð með samningnum. Þórólfur Matthíasson sagði í Fréttablaðinu 26. júní: „Samþykki Alþingi ekki ríkisábyrgð á Icesave-lánið gæti skapast stríðsástand í efnahagslífinu hérlendis, Ísland fengi hvergi fyrirgreiðslu, fyrirtæki færu unnvörpum í þrot og við yrðum sett á sama stall í samfélagi þjóðanna og Kúba og Norður-Kórea.“ Sama kvöld sagði Gylfi Magnússon í viðtali við Stöð tvö, að Ísland yrði „svona Kúba norðursins“, yrði Icesave-samningurinn ekki samþykktur. En voru þessi öfugmæli ekki úr undirmeðvitund Freuds? Hefði Icesave-samningur Kúbufarans gamla ekki einmitt gert Ísland að Kúbu norðursins? Var leikurinn ef til vill til þess gerður? Í skuldafangelsi er vistin bærileg fangelsisstjórninni.

[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. september 2014. Skylt er að geta þess, að síðan kvað Gylfi ummæli sín hafa verið vanhugsuð. Þórólfur hefur hins vegar ekkert sagt um ummæli sín.]

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband