Góður vinnustaður

Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé, en ég verð þó að segja, að
Háskóli Íslands er góður vinnustaður. Mér hefur líkað vel að kenna þar,
frá því að ég var skipaður lektor í stjórnmálafræði sumarið 1988, og
hafa prýðilega aðstöðu til rannsókna, sem ég hef tiltölulega frjálsar
hendur um. Ég kann vel við nemendur mína, sem eru hressir, fjörugir og
fróðleiksfúsir, og samkennara, sem komu mér skemmtilega á óvart með
höfðinglegri gjöf á sextugsafmæli mínu fyrir hálfu öðru ári, og tóku
jafnvel fornir fjandmenn eins og Svanur Kristjánsson þátt í henni. Ég
hef hins vegar reynt eftir megni að færast undan stjórnunarstörfum, enda
hef ég meiri áhuga á grúski á Þjóðarbókhlöðunni en löngum fundum. Hafa
samstarfsmenn mínir verið furðuþolinmóðir og sveigjanlegir gagnvart mér
og mínum sérþörfum. Þeir menn, sem nú gegna trúnaðarstörfum fyrir
Háskólann, eru undantekningarlaust vel gefnir og góðviljaðir menn. Þegar
ég sé það óöryggi og ósjálfstæði, sem margir aðrir þurfa að búa við á
sínum vinnustöðum, rifjast upp fyrir mér, hversu góður vinnustaður
Háskólinn er. Ég þarf að minnsta kosti ekki að kvarta.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband