Áttum við að stofna lýðveldi?

Hinn 17. júní 2014 var haldið upp á sjötíu ára afmæli lýðveldisins. Þrjú merkilegustu ártöl stjórnmálasögunnar á 20. öld voru eflaust 1904, þegar við fengum heimastjórn, 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki, og 1944, þegar lýðveldi var stofnað. Rök hníga þó að því, að mestu tímamótin hafi verið í raun árið 1918. Þá varð í fyrsta skipti til íslenskt ríki. Áður hafði Ísland verið hjálenda Danmerkur án skýrrar réttarstöðu. Örar framfarir í íslensku atvinnulífi í upphafi 20. aldar, aðallega í sjávarútvegi, sannfærðu Dani um, að óhætt væri að veita þessari undarlegu og heimtufreku eyþjóð langt úti í hafi fullveldi, auk þess sem þeir höfðu hagsmuni af því vegna vonarpenings í Norður-Slésvík að sjást virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða.

Ísland var sjálfstætt konungsríki frá 1918 í konungssambandi við Danmörku, en til bráðabirgða fóru Danir með utanríkismál og sinntu landhelgisgæslu. Frá öndverðu var gengið að því vísu, að Íslendingar tækju með tímanum í sínar hendur utanríkismál og landhelgisgæslu, en mörgum þóttu Danir gæta hagsmuna þjóðarinnar á Íslandsmiðum slælega. Þeir höfðu gert vondan samning við Breta árið 1901 til fimmtíu ára um þriggja mílna landhelgi og voru svo værukærir við landhelgisgæslu, að orð úr dagbók dansks varðskips voru höfð í flimtingum: „Stille i Havnen, Storm udenfor.“ Logn í höfn, stormur á sjó. Þegar horft er um öxl, má þó segja, að Íslendingar hafi verið heppnir með sína yfirboðara miðað við margar aðrar þjóðir. Eftir miðja nítjándu öld vildu Danir okkur vel, en gátu auðvitað ekki gætt hagsmuna okkar af sömu þekkingu og áhuga og við sjálf.

Því má velta fyrir sér, hvers vegna Íslendingar fóru ekki sömu leið og íbúar Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálands, sem fengu fullt sjálfstæði, en kusu að slíta ekki konungssambandi við gamla heimalandið. Hvers vegna héldum við ekki í kóng, sem hefði sótt Ísland heim einu sinni á ári, haft sér við hlið drottningu í íslenskum skautbúningi, haldið fyrirfólki kvöldverð og hengt heiðursmerki á grandvara embættismenn og hetjur úr héraði? Sennilega eru tvær skýringar á því. Tengsl Íslands og Danmerkur voru þrátt fyrir allt ekki eins náin og þessara þriggja konungsríkja og Bretlands. Í öðru lagi áttu Danir og Íslendingar ekki samleið í stríðinu. En nú standa Færeyingar frammi fyrir svipuðu úrlausnarefni og Íslendingar. Margir þeirra vilja fullt sjálfstæði. En þurfa þeir að stofna lýðveldi?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. júní 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband