Ný ritgerð mín í enskri bók

Ég var að fá í hendur nýja bók, Understanding the Crash. The Financial Crisis of 2008, sem Danube Institute í Búdapest gefur út. Á meðal höfunda eru ásamt mér Norman Lamont lávarður, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, Peter J. Wallison, lögmaður bandaríska forsetaembættisins í tíð Ronalds Reagans og höfundur minnihlutaálits rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings um fjármálakreppuna 2008, Péter Ákos Bod, fyrrverandi seðlabankastjóri Ungverjalands, Jack Hollihan, kunnur bandarískur fjárfestir, og fleiri.

Ritgerð mín í bókinni nefnist „The Rise, Fall and Rise of Iceland“. Þar ræði ég um helstu skýringar, sem fram hafa verið settar á bankahruninu íslenska, en bendi á, að sumar þeirra fái ekki staðist. Til dæmis orsakaði nýfrjálshyggja ekki bankahrunið, því að íslensku bankarnir störfuðu við nákvæmlega sama regluverk og bankar í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki nægir heldur að nefna til sögunnar glannaskap bankamanna, þótt vissulega hafi hann verið mikill, því að margir aðrir bankar en hinir íslensku hefðu hrunið, hefði þeim ekki verið hjálpað, til dæmis Danske Bank í Danmörku, RBS í Bretlandi og UBS í Sviss.

Haldbærari skýringar á því, að bankahrun varð á Íslandi við hina alþjóðlegu fjármálakreppu, en ekki annars staðar, eru, að íslenska seðlabankanum var einum seðlabanka neitað um gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann, að breskum bönkum í eigu Íslendinga var einum neitað um þá fyrirgreiðslu, sem breska ríkið veitti bönkum í október 2008, og að Verkamannaflokksstjórnin breska setti hryðjuverkalög á Íslendinga — ekki aðeins Landsbankann, heldur líka Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.

Í ritgerðinni ræði ég enn fremur eftirleikinn, brottrekstur Davíðs Oddssonar — sem hafði einn ráðamanna varað við örum vexti bankakerfisins — úr Seðlabankanum, landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde — sem reyndist hin mesta sneypuför — og hið ótrúlega Icesave-mál, þar sem ráðherrar vinstri stjórnarinnar reyndu með dyggum stuðningi sumra samkennara minna að loka Íslendinga inni í skuldafangelsi, af því að þeir héldu, að þar gætu þeir sjálfir orðið fangelsisstjórarnir.

Ritgerðin er sótt í fyrirlestur, sem ég flutti á ráðstefnu í Búdapest í nóvember 2013. Þar var Lamont lávarður líka, og spratt hann upp eftir hann og baðst afsökunar á framferði bresku Verkamannaflokksstjórnarinnar, sem hann sagði til skammar. Ólíkt fórst honum og utanríkisráðherra þessarar Verkamannaflokksstjórnar, David Miliband, sem kom til Íslands og bannaði allar spurningar um samskipti Íslendinga og Breta vegna fjármálakreppunnar og bankahrunsins, en við Miliband brostu blítt allir sömu samkennarar mínir og höfðu viljað loka okkur inni í skuldafangelsi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband