Brestir í kenningu Pikettys

Í bókinni Fjármagn á 21. öld heldur Tómas Piketty því fram, að tekjudreifing sé orðin miklu ójafnari á Vesturlöndum en hún var mestalla 20. öld. Hún sé að nálgast það, sem hún var á 18. og 19. öld, þegar Jane Austen og Honoré de Balzac skrifuðu skáldsögur um fólk, sem gat aðeins komist úr lágstétt í hástétt með því að stofna til vensla. Piketty telur Gini-stuðulinn, sem er oft notaður til að mæla tekjudreifingu, óheppilegan. Hann vill frekar horfa á hlut tekjuhæsta 1% í heildartekjum. Sá hlutur sé nú orðinn miklu hærri en áður.

Þótt sumar tölur Pikettys hafi verið véfengdar, meðal annars í vandaðri úttekt Lundúnablaðsins Financial Times, skulum við rökræðunnar vegna gera ráð fyrir, að Piketty hafi rétt fyrir sér um þróunina. En eru ekki sömu gallar á þessari mælingu og Gini-stuðlinum?

Gini-stuðullinn mælir tekjudreifingu eins árs. Hann er 0, ef allir hafa sömu tekjur, og 1, ef einn maður hefur allar tekjurnar. Á Norðurlöndum, þar á meðal Íslandi, er hann um 0,25–0,30. Í Bretlandi og Bandaríkjunum er hann hærri, um 0,35–0,40. Sums staðar er hann enn hærri, til dæmis í Brasilíu. En hvað gerist, ef við horfum á ævitekjur frekar en tekjur eins árs? Alkunna er, að menn hafa misjafnar tekjur á ævinni. Þeir eru tekjulausir sem börn, tekjulágir sem unglingar og námsmenn, hækka smám saman í tekjum á starfsferli sínum, en verða aftur tekjulágir sem ellilífeyrisþegar, enda hafa þeir þá oftast komið sér upp nægum eignum af tekjum sínum til æviloka.

Hugsum okkur, að allir hafi sömu ævitekjur. Þá hækkar Gini-stuðullinn, ef fjölgar í hópi þeirra, sem stunda langskólanám. Hann hækkar líka, ef menn fara fyrr en áður á eftirlaun. Hann hækkar líka, ef menn lifa lengur en áður. En allt þetta þrennt — langskólanám, lækkaður eftirlaunaaldur og langlífi — er jafnan talið æskilegt, og í raun er ekkert af þessu til marks um ójafnari tekjudreifingu milli manna en áður, heldur aðeins ójafnari tekjudreifingu sama manns á ævinni. Hið sama gerist, ef við notum mælikvarða Pikettys. Hlutur hins tekjuhæsta 1%, eins og hann mælist á einu ári, stækkar, ef fleiri fara almennt í langskólanám, fara fyrr á eftirlaun og lifa lengur. Þetta þrennt hefur einmitt verið að gerast síðustu þrjátíu ár.

Önnur ástæða er til þess, að hlutur tekjuhæsta 1% í heildartekjum er eflaust ofmældur samkvæmt kenningu Pikettys. Hún er, að eftir skattalækkanir á þennan hóp síðustu áratugi 20. aldar fluttist starfsemi hans að mörgu leyti úr óskattlögðum farvegum í skattlagða. Þessi hópur hefur í þjónustu sinni herskara af lögfræðingum og endurskoðendum til að skipuleggja skattgreiðslur sínar (sem er ekki hið sama og að svíkja undan skatti). Þessi hópur hafði oftast ekki launatekjur, sem erfitt er að komast hjá því að greiða skatt af, heldur margvíslegar fjármagnstekjur. Um leið og skattar lækkuðu á slíkar tekjur, skiluðu skattgreiðslur af þeim sér betur í ríkissjóð. Þær birtust, ef svo má segja. Þau gæði, sem tekjuhæsta 1% hafði til ráðstöfunar, voru ef til vill jafnmikil fyrir skattalækkanirnar, en þau voru ekki alltaf í skattlögðum farvegum.    

Piketty ofmetur þannig hlut tekjuhæsta 1% í heildartekjum. Um leið vanmetur hann hlut tekjulægsta hópsins, hvort sem við skilgreinum hann sem 5%, 10% eða 20%, því að hann reiknar út ráðstöfunartekjur eftir skatta, en fyrir millifærslur. Til dæmis reiknar hann ekki með bótum og niðurgreiddri heilbrigðisþjónustu, sem eykur ráðstöfunartekjur tekjulægsta hópsins verulega. Því vanmetur hann raunverulegar tekjur tekjulægsta hópsins. Við það mælist enn hlutur tekjuhæsta 1% stærri í heildartekjum, jafnvel þótt hann hafi ekki stækkað.

Ekki er allt sem sýnist í þessum fræðum. Hitt er annað mál, að frjálslynt fólk hefur meiri áhuga á auðsköpun en endurdreifingu. Það vill jafna upp á við, ekki niður á við. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband