Grýlubrellur Stefáns Ólafssonar

Þegar ég stundaði heimspekinám fyrir óralöngu, var eitt námskeiðið í rökfræði. Þar vorum við vöruð við ýmsum rökleysum eða brellum, sem báru virðuleg nöfn á latínu. Ein hafði þó enskt heiti, „straw man fallacy“, þegar andstæðingi er gerð upp skoðun, sem tiltölulega auðvelt er að hrekja, og síðan er hin uppgerða skoðun hrakin með lúðrablæstri og sigurópum. Ég hef lagt til að kalla þetta „grýlubrelluna“ á íslensku.

Stefán Ólafsson prófessor, sem virðist vera sjálfskipaður talsmaður Hólmsteinshatarafélagsins, hefur oft notað þessa grýlubrellu á mig, til dæmis í ádeilum á mig fyrir skoðanir á loftslagsmálum, sem ég hef aldrei haft.

beitir hann sömu brellu vegna fyrirlesturs, sem ég flutti um karlmennsku á dögunum. Boðskapur minn þar var einfaldur. Þegar við skoðum tölur um óhamingju eða böl, hallar á karla: Þeir lifa skemur en konur, stytta sér frekar aldur, verða frekar fyrir slysum, fremja frekar glæpi og hneigjast frekar til fíkniefnaneyslu og ofdrykkju. Ég dró þá eðlilegu ályktun af þessum tölum, að hlutskipti karla sé almennt erfiðara en kvenna.

Ég setti hins vegar ekki fram neina kenningu um það, að þetta sýndi, að konur kúguðu karla, enda er það ekki skoðun mín. Því síður setti ég fram neina kenningu um það, að þetta hlutskipti karla væri jafnréttisbaráttunni að kenna. Þegar Stefán ræðst á mig fyrir þessar kenningar, missir hann þess vegna marks. Ég er femínisti í þeim skilningi, að ég styð fullt jafnrétti kynjanna og ber virðingu fyrir frjálsu vali kvenna jafnt og karla. En ég er ekki öfgafemínisti, sem trúi því, að karlar eigi almennt enga ósk heitari en kúga konur.

Þegar ég talaði um launamun kynjanna, setti ég hins vegar fram þá skýringu á honum (sem raunar má heita viðtekin í hagfræði), að karlar og konur röðuðu sér ólíkt í tegundir starfa af ýmsum hvötum, og þegar tekin séu meðaltöl launa í þeim störfum, sem kynin hafa tilhneigingu til að velja, séu þau meðaltöl lægri í þeim störfum, sem konur hafa tilhneigingu til að velja sér, en af ástæðum, sem ekki verða rakin til þess, að konur hafi tilhneigingu til að velja þau. Launamuninn megi því ekki nema að mjög litlu leyti rekja til þess, að karlar mismuni konum, „karlaveldið“ skammti kjör.

Stefán heldur því hins vegar fram, að konur fái ekki jafnhá laun fyrir sömu vinnu og karlar. Ef hann veit einhver dæmi þess, þá á hann að láta yfirvöld vita. Samkvæmt lögum eiga konur og karlar að fá jafnhá laun fyrir sömu vinnu. Mér finnst það sjálfum líka réttlátt og eðlilegt, hvort sem það á síðan að vera lögboðið eða ekki.

Ég tel síðan og ætti ekki að þurfa að taka það fram, að verkaskipting á heimilum sé einkamál hjóna, sem hvorugum okkar Stefáni kemur við. Væntanlega hafa flest hjón þann hátt á, að það hjónanna, sem líklegra er til að geta sérhæft sig, einbeitt sér og aflað hárra tekna, fari út á vinnumarkaðinn, en hitt sinni frekar heimilishaldi, þótt nú færist það í vöxt, að bæði hjónin sinni lífsbaráttu og heimilishaldi saman, og hef ég ekki nema gott eitt um það að segja. Ég benti hins vegar á það, að náttúran hefur kjörið konur til að ganga með börn og gefa þeim á brjóst, og það er dýrmæt lífsreynsla, sem karlar fara á mis við (að meistara Þórbergi undanteknum, sem skrifaði langt mál um það, þegar hann var þungaður). Ef til vill er ein skýringin á því, að konur ráða betur við lífið en karlar, að þær öðlast lífsfyllingu við þetta.

Það er eflaust rétt, sem Stefán Ólafsson segir, að karlar eru í eðli sínu árásargjarnari en konur vegna kirtlavaka sinna (testosterón). Sjálfur er hann gott dæmi um þessa árásargirni. Vart líður svo vika, að hann ráðist ekki á mig á bloggi sínu á Eyjunni. En ef til vill telur hann sig líka eiga harma að hefna, þar eð ég hef komið upp um rangar tölur hans um tekjudreifingu, skattleysismörk og lífeyristekjur og um trúnaðarbrot hans í starfi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband