Viðtal við mig í Die Presse

Nýlega birtist við mig viðtal í hinu víðlesna austurríska blaði Die Presse, sem Nikolaus Jilch tók. Þar var ég spurður, hvort bankahrunið á Íslandi mætti rekja til nýfrjálshyggju, eins og sumir vinstri menn halda fram. Ég svaraði því til, að það væri fráleitt, enda hefðu Íslendingar búið við sömu samræmdu reglur á fjármálamarkaði og aðrar þjóðir á Evrópska efnahagssvæðinu, sem nær til Evrópusambandsins, Noregs, Íslands og Liechtenstein. Þrjár meginástæður væru til þess, að íslensku bankarnir hefðu hrunið, en ekki bankar í öðrum Evrópulöndum. Bandaríski seðlabankinn hefði neitað íslenska seðlabankanum um gjaldeyrisskiptasamninga, sem hann hefði hins vegar gert við seðlabanka annarra Norðurlanda (utan Evrusvæðisins) og seðlabanka margra annarra landa. Slíkir gjaldeyrisskiptasamningar gerðu til dæmis danska seðlabankanum kleift að bjarga Danske Bank, sem hefði ella hrunið. Í öðru lagi hefði ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins neitað bönkum í eigu Íslendinga í Bretlandi um fyrirgreiðslu, á sama tíma og hún hefði eytt stórfé í að bjarga öðrum bönkum í Bretlandi, sem ella hefðu hrunið. Í þriðja lagi hefði það bætt gráu ofan á svart, þegar stjórn Verkamannaflokksins hefði sett hryðjuverkalög á Landsbankann (og raunar líka á Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið).

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband