Steinn og stjórnmálin

Ungur gekk Steinn Steinarr í kommúnistaflokk Íslands, sem stofnaður var haustið 1930. Einnig átti hann þátt í því að stofna Félag byltingarsinnaðra rithöfunda 1933 og er ein aðalsöguhetjan í skemmtilegri smásögu, sem Guðmundur Daníelsson skrifaði um fund í því félagi. En snemma bar á því, að Steinn væri sjálfstæður í hugsun, og var hann í maí 1934 rekinn úr kommúnistaflokknum í hreinsunum, sem þar fóru fram að kröfu Kremlverja.

Ári síðar skrifaði æðstiprestur kommúnista í menningarmálum, Kristinn E. Andrésson, í hótunartón: „Að Steini Steinarr gæti verkalýðnum orðið mikill styrkur, ef hann beitir framvegis skáldgáfu sinni í þjónustu hans, og annars staðar en með verkalýðnum þarf Steinn ekki að hugsa til að geta notið skáldgáfu sinnar.“ Steinn var um skeið skráður í Alþýðuflokkinn, en studdi Sósíalistaflokkinn, eftir að hann var stofnaður 1938. Ekki gátu þó sósíalistar alltaf reitt sig á Stein. Hann kom Tómasi Guðmundssyni til varnar, þegar sósíalistar skrifuðu um hann skæting í málgagn sitt, Þjóðviljann. Hann studdi líka opinberlega Ásgeir Ásgeirsson í forsetakjöri 1952, en flokksbundnir sósíalistar, sem það gerðu, voru reknir úr flokknum.

Kristinn E. Andrésson hefur ef vil vill viljað endurheimta Stein í flokkinn, þegar hann bauð honum ásamt nokkrum öðrum rithöfundum í skemmtiferð til Ráðstjórnarríkjanna sumarið 1956. Sú ferð varð hins vegar fræg, því að Steinn og einn ferðafélagi hans, Agnar Þórðarson rithöfundur, snerust þá opinberlega gegn sósíalismanum. Tímaritið Birtingur, sem átti að heita óháð sósíalistum, vildi að vísu ekki prenta grein Agnars um ferðina, en Alþýðublaðið tók viðtal við Stein 19. september, sem vakti mikla athygli. Þar sagði Steinn, að stjórnarfar undir ráðstjórn væri „eins konar ofbeldi, ruddalegt, andlaust og ómannúðlegt“. Eftir það lágu leiðir hans og sósíalista ekki saman.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. apríl 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband