Nýjar upplýsingar um gamalt trúnaðarbrot

Ég fagnaði því á dögunum, þegar Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands fékk Stefán Ólafsson prófessor til að hafa framsögu á opnum fundi um það, hvort háskólakennarar væru í pólitískri krossferð. Stefán talaði þar af eigin reynslu, enda hefði hann farið í slíkar krossferðir fyrir þingkosningar 2003 og 2007. Jafnframt rifjaði ég upp, að Stefán hefði einnig stundað hvíslingar. Á meðan hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hefði hann skýrt ritstjórum Morgunblaðsins, Matthíasi Johannessen og Styrmi Gunnarssyni, frá niðurstöðum könnunar, sem Hreinn Loftsson fékk Félagsvísindastofnun til að gera í fullum trúnaði vorið 1996 um sigurlíkur nafngreindra manna í forsetakjöri 1996. Matthías upplýsti um þetta í dagbókarfærslu frá 8. maí 1996, sem birtist löngu síðar á Netinu. Stefán hefur andmælt þessu á bloggi sínu og sagt, að þeir ritstjórarnir hefðu vitað af könnuninni. Það kann vel að vera, enda er eðli málsins samkvæmt erfitt að halda því leyndu, að slík könnun sé gerð. Þeir vissu hins vegar ekki af niðurstöðum könnunarinnar. Þær voru algert trúnaðarmál, og átti Hreinn einn að fá þær í hendur. Þegar Hreinn Loftsson las andmæli Stefáns á blogginu, skrifaði hann mér tölvubréf 16. apríl 2014, sem hljóðaði svo:

Sæll. Ég sé að þessi maður, Stefán Ólafsson, á í vandræðum með trúnaðarbrestinn gagnvart mér 1996. Hann virðist þó telja sig öruggan þar sem ég muni ekki tjá mig um málið vegna vinslita okkar Davíðs Oddssonar. Þetta hefur hann víst sagt. En rétt skal vera rétt. Slík var leyndin að ég kom heim til hans og ræddi þar um orðalag spurninga. Ekki upp á skrifstofu hans í Háskóla Íslands. Þetta var gert í fullkomnum trúnaði og ég greiddi fyrir könnunina úr eigin vasa. Var ég þó ekkert sérstaklega fjáður. Eg vildi aðeins tryggja að Davíð Oddsson færi ekki út í neina vitleysu enda fannst mér hann eiga ævistarfið eftir sem forsætisráðherra. Mér var því verulega brugðið þegar ég sá dagbókarfærslu Matthíasar Johannessens. Var þá nokkuð að marka niðurstöðu könnunarinnar? Í dagbókarfærslu Matthíasar kemur ekki neitt annað fram en að Stefán Ólafsson hafi trúað Matthíasi og Styrmi Gunnarssyni fyrir niðurstöðunni aðeins örfáum vikum eftir að könnunin var gerð. Hvílík skömm! Ég er að bræða það með mér hvernig best sé að jafna um við þennan svikahrapp og allar tillögur vel þegnar í því sambandi. Kveðja, Hreinn.

Ég kvað einfaldast að birta bréf hans, og veitti Hreinn mér leyfi til þess. Bréfið er hér birt í heild og óbreytt, nema hvað ég hef leyst upp úr skammstöfunum og leiðrétt eina ásláttarvillu. Bréfið skýrir sig sjálft. Ég hef engu við það að bæta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband