Fundirnir sem ekki voru haldnir

Fræg eru ummæli Björns Sigfússonar háskólabókavarðar: „Þögnin er fróðleg, þó að henni megi ekki treysta um hvert atriði.“ Stundum segja menn margt með því að þegja. Á sama hátt eru tveir fundir, sem boðaðir voru, en ekki haldnir, merkilegir í íslenskri stjórnmálasögu síðari tíma.

Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, MÍR, héldu venjulega hátíðarfund í Reykjavík á afmæli rússnesku byltingarinnar 7. nóvember, enda nutu samtökin ríflegs fjárhagsstuðnings að austan. Miðvikudagskvöldið 7. nóvember 1956 hafði slíkur fundur verið auglýstur á Hótel Borg, og ræðumaðurinn skyldi vera sjálfur Halldór Kiljan Laxness, sem hlotið hafði Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið áður. Hljóta dyggustu ráðstjórnarvinirnir í Sósíalistaflokknum eins og þeir Jón Rafnsson og Eggert Þorbjarnarson, starfsmenn Sósíalistaflokksins, og Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Dagsbrúnar, að hafa hlakkað til. En Kremlverjar gerðu þeim þann óleik að ráðast inn í Ungverjaland nokkrum dögum áður og kæfa í blóði uppreisn gegn kommúnistastjórninni. Hætt var þegjandi og hljóðalaust við fundinn.

Leið nú rösk hálf öld. Íslenskir vinstri menn höfðu haft húsbóndaskipti. Kremlverjar voru farnir veg allrar veraldar, en breski Verkamannaflokkurinn stjórnaði Bretlandi, hafði sett hryðjuverkalög á Íslendinga og krafist þess, að íslenskir skattgreiðendur greiddu skuldir, sem nokkrir athafnamenn og erlendir viðskiptavinir þeirra höfðu stofnað til. Vildu vinstri menn láta undan þessum kröfum. Þegar því var tvívegis hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum, settu þeir traust sitt á, að EFTA-dómstóllinn liðsinnti þeim. Úrskurðinn átti að kveða upp 28. janúar 2013. Samfylkingin auglýsti fund miðvikudagskvöldið 30. janúar á Hallveigarstíg, þar sem Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, skyldi vera ræðumaður. En vinstri mönnum að óvörum vann Ísland málið. Þá var birt þessi óborganlega auglýsing: „Ágæti félagi. Áður auglýstum fundi um Icesave-dóminn sem halda átti á Hallveigarstíg 1 annað kvöld, miðvikudagskvöldið 30. janúar, er frestað vegna þess að húsnæðið á Hallveigarstíg er þétt setið þessa dagana vegna landsfundarverkefna og undirbúnings sem honum tengist.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. desember 2013.) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband