Þau sögðu það aldrei

Franski rithöfundurinn Voltaire var kunnur að andríki, svo að margt er eignað honum, sem hann á ekki. Ein frægasta setningin er: „Ég er ósamþykkur því, sem þú segir, en ég mun fórna lífinu fyrir rétt þinn til að segja það.“ Voltaire sagði þetta aldrei, heldur er þetta endursögn S. G. Tallentyres (sem hét réttu nafni Evelyn Beatrice Hall) á skoðun Voltaires á því, er bókin Sálin eða D’Esprit eftir Helvetius var brennd opinberlega árið 1759.

Maríu Antoinettu, drottningu Frakklands fram að byltingu, hafa verið eignuð fleyg orð, þegar henni var sagt, að þegna hennar vantaði brauð: „Þá geta þau borðað kökur.“ Hvergi eru til neinar heimildir um, að drottning hafi sagt þetta. Hins vegar hefur heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau nánast sömu orð eftir ónafngreindri prinsessu í Játningum sínum, VI. bók, en þær voru ritaðar, nokkrum árum áður en María Antoinetta kom fyrst til Frakklands.

Ein kunnustu orðin, sem eignuð eru manni ranglega, tengjast líka frönsku stjórnarbyltingunni, sem hófst 14. júlí 1789 með árásinni á Bastilluna í París. Þegar Nixon Bandaríkjaforseti fór til Kína með fríðu föruneyti 1972, var Zhou Enlai, forsætisráðherra Kína, spurður, hvað honum fyndist um áhrif frönsku stjórnarbyltingarinnar. „Það er of snemmt að segja til um það,“ svaraði Zhou. Þetta höfðu margir til marks um djúpa visku hins kínverska stjórnmálamanns, næstráðanda Maós. Talið var, að Kínverjar væru spekingar miklir, sem hugsuðu til langs tíma ólíkt Vesturlandamönnum.

Í ljós hefur komið, að þetta er rangt, eins og dr. Guðni Jóhannesson sagnfræðingur benti mér fyrstur á, en má meðal annars sjá í Financial Times 10. júní 2011. Kínverskar heimildir sýna, að um var að ræða samtal Zhous við öryggismálaráðgjafa Nixons, Henry Kissinger, og Zhou var að svara spurningu um stúdentaóeirðirnar í París 1968, sem sumir æskumenn kölluðu þá byltingu. Bandarískir sendimenn í föruneyti Nixons staðfesta þetta. Verður góð saga hér að víkja fyrir boðorði Ara fróða um að hafa það jafnan, sem sannara reynist.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. desember 2013, að mestu leyti sóttur í bók mína, Kjarna málsins, sem fæst í góðum bókabúðum og er tilvalin gjöf á öllum árstímum.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband