Egill, Jónas og tilvitnanirnar

Bókmenntastjóri Ríkisútvarpsins, Egill Helgason, bloggaði á Eyjunni 6. nóvember 2012 gegn sparnaðartillögum ungra sjálfstæðismanna í ríkisrekstri. Þeir vildu til dæmis, að menn sinntu menningu á eigin kostnað, ekki annarra. Egill kvað þetta minna á nasistann Hermann Göring, sem ætti að hafa sagt: „Þegar ég heyri orðið menning, dreg ég fram skammbyssuna.“ En margir hafa bent á það, þar á meðal ég í bók tveimur árum fyrir blogg Egils, að þetta er rangt haft eftir. Göring sagði þetta hvergi. Þýska leikskáldið Hanns Johst leggur stormsveitarmanni þetta í munn í leikritinu „Schlageter“, sem frumsýnt var 1933. „Wenn ich Kultur höre … entsichere ich meinem Browning.“ Sagnfræðingurinn og byssumaðurinn Egill Stardal fræddi mig á því, að besta íslenska þýðingin væri: „Þegar ég heyri orðið „menning“, spenni ég hanann á byssunni minni!“ Það er síðan annað mál, hversu smekklegt er að líkja sparnaðartillögum í ríkisrekstri, þar á meðal niðurgreiðslum á þjónustu við yfirstétt vinstri manna (fastagestina í Þjóðleikhúsinu), við nasisma. Sitt er hvað, að biðja fólk að vinna fyrir sér sjálft eða að skjóta það fyrir rangar skoðanir.

Margir aðrir jafnfróðir menn Agli hafa raunar misfarið með fleyg orð. Í greinaflokknum „Komandi ár“, sem Jónas Jónsson frá Hriflu skrifaði í Tímann sumarið 1921, skipti hann mönnum í samkeppnismenn, sameignarmenn og samvinnumenn og sagði síðan um frjálsa samkeppni á markaði: „Máttur er þar réttur, eins og Bismarck vildi vera láta í skiptum þjóða.“ Hvort tveggja er þetta rangt. Frjáls samkeppni felst ekki í því, að hinn sterkari troði á öðrum, heldur í hinu, að atvinnurekandi leggi sig fram um að fullnægja þörfum viðskiptavina sinna betur eða ódýrar en keppinautarnir. Og Bismarck sagði hvergi, að máttur væri réttur í skiptum þjóða. Í umræðum í fulltrúadeild prússneska Landsdagsins (þingsins) 27. janúar 1863 kvaðst Maximilian von Schwerin ekki geta skilið ræðu Bismarcks þá á undan öðru vísu en svo, að máttur væri réttur. En Bismarck harðneitaði þá og síðar að hafa sagt þetta. 

Raunar hafa komið út heilu bækurnar um orð, sem mönnum hafa verið lögð í munn, en þeir ekki sagt, og ræði ég nokkrar slíkar tilvitnanir, innlendar og erlendar, í bók minni frá 2010, Kjarna málsins.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. nóvember 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband