Drýldni

Mörgum þykir gæta nokkurrar drýldni í frásögn Steingríms J. Sigfússonar í nýútkominni bók um það, hvernig hann hafi bjargað Íslandi með þrotlausu erfiði. Talar Steingrímur við íslensku þjóðina í svipuðum anda og alkunn söguhetja úr Brennu-Njáls sögu, Björn í Mörk Kaðalsson, forðum við Kára Sölmundarson: „Hvorki frý eg mér skyggnleiks né áræðis eða nokkurrar karlmennsku. En því munt þú hingað kominn að nú mun fokið í öll skjól.“ Seinna sagði Björn við Kára: „Þetta er hættuför mikil og munu fáir hug til hafa nema þú og eg.“

Steingrímur J. Sigfússon lætur eins og hann hafi verið einn að verki eftir hrun bankanna. Minnir það óneitanlega á hina óborganlega setningu, sem Gísli Sveinsson, forseti Alþingis 1944, lét út úr sér stundarhátt við kunnan Vestur-Íslending, Valdimar Björnsson, að kvöldi 17. júní 1944: „Já, mikið er á eins manns herðar lagt að stofna lýðveldi á Íslandi.“

Sumt í bók Steingríms J. Sigfússonar hljómar raunar eins og setningin, sem Jósep Stalín skrifaði sjálfur inn í stutta ævisögu sína frá 1948: „Enda þótt hann leysti af hendi hlutverk sitt sem leiðtogi flokksins og fólksins af frábærum dugnaði og nyti ótakmarkaðs stuðnings allrar ráðstjórnarþjóðarinnar, lét Stalín aldrei hinn minnsta vott fordildar, drembilætis eða sjálfsaðdáunar lýta starf sitt.“ Skýrði Níkíta Khrústsjov frá þessu framlagi Stalíns til bókmenntanna í leyniræðu sinni 1956.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon reynir síðan að bera sig saman við aðra og tilkomumeiri íslenska stjórnmálamenn, getur langminnugum mönnum ekki dottið annað í hug en ummæli Bjarna Jónssonar frá Vogi. Hann bar það við að yrkja, en gerði það stirðlega. Eitt sinn sýndi hann Kristjáni Albertssyni hólgrein um skáldskap sinn í þýsku blaði og sagði um leið: „Þér skuluð ekki halda, ungi maður, að ég hafi einhverjar áhyggjur af Einari Benediktssyni, ef þér eruð eitthvað að ýja að því!“ 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband