Svíþjóð

Fyrir nokkru var ég á ferð í Svíþjóð. Allt er þar í föstum skorðum. Svíar eru áreiðanlegir, nákvæmir, seinteknir, gætnir, veitulir, áhugasamir um Ísland. Landið er fallegt, en heldur er þar kalt að vetrarlagi, enda færði sænski málfræðingurinn Adolf Törneros í dagbók sína 1827: „Í Svíþjóð eru aðeins til tvær árstíðir, hvítur vetur og grænn.“

Jafnaðarmenn hafa haft mikil áhrif í Svíþjóð og sagt margt fleygt. Frægt var, þegar Ernst Wigforss, sem var lengi fjármálaráðherra Svía, mælti í Ríkisdeginum 1928: „Fátæktinni er tekið með jafnaðargeði, þegar henni er jafnað á alla.“ Sama ár sagði leiðtogi jafnaðarmanna, Per Albin Hansson, sem var forsætisráðherra 1932–1946, líka í Ríkisdeginum: „Einhvern tíma hlýtur hin stéttskipta Svíþjóð að breytast í þjóðarheimilið Svíþjóð.“ Þessi hugmynd um „Folkhemmet“ eða þjóðarheimilið var lengi leiðarljós sænskra jafnaðarmanna.

Það er hins vegar mikill misskilningur, að Svíar séu allir jafnaðarmenn. Í fyrirlestri, sem ég flutti í þessari ferð í Stokkhólmi, benti ég á, að frjálslyndir, sænskir hagfræðingar hafa haft mikil áhrif á Íslandi. Til dæmis var það, sem Jón Þorláksson, forsætisráðherra og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði um hagskipulag og hagstjórn nánast beint upp úr skrifum sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels, sem var áhrifamikill tvo fyrstu áratugi 20. aldar. Birgir Kjaran hagfræðingur, sem reyndi að marka Sjálfstæðisflokknum stefnu laust eftir miðja öldina, skírskotaði til annars sænsks hagfræðings, Bertils Ohlins, sem var lengi formaður Þjóðarflokksins þar í landi.

Íslendingar hafa gert ýmsar athugasemdir við sænska jafnaðarstefnu. Þegar Laxness gerði upp við kommúnismann í Skáldatíma 1963, sagði Bjarni Benediktsson: „Í Skáldatíma lýsir Halldór Kiljan Laxness því, hvernig hann breyttist úr kommúnista í Svía.“ Jón Sigurðsson sagnfræðingur, sem var um skeið ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði einhvern tíma við vin sinn, Harald Blöndal lögfræðing: „Ég fór til Rússlands og sá illa heppnaðan sósíalisma. Síðan fór ég til Svíþjóðar og sá vel heppnaðan sósíalisma. Þá var mér nóg boðið.“ Svíum var loks sjálfum nóg boðið. Nú lækka þeir skatta og leyfa einkarekstur skóla og sjúkrahúsa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. nóvember 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband