Nelson Mandela 23 árum síðar

Ég skrifaði grein um nýlátinn forystumann Suður-Afríku, Nelson Mandela, í DV 30. júlí 1990. Fróðlegt er að lesa hana aftur í ljósi sögunnar. Í rauninni var eitt aðalatriðið í grein minni sú skoðun Bertolts Brechts, að það land væri ógæfusamt, sem þyrfti á hetjum að halda. Fastar og fyrirsjáanlegar reglur skiptu meira máli en voldugir einstaklingar. En það mega hvítir menn í Suður-Afríku eiga, sem ég sá ekki fyrir, að þeir samþykktu að afsala sér völdum og samþykkja lýðræðislegar kosningar. Og það má Mandela eiga, sem ég sá ekki heldur fyrir, að hann notaði ekki afdráttarlausan meirihlutastuðning við sig til að níðast á hvítum mönnum eftir valdaskiptin í Suður-Afríku. Sýndi hann þá dæmafátt göfuglyndi. Hann skipaði sannleiksnefnd, en dró ekki fyrrverandi forystumenn fyrir dóm eins og Steingrímur J. Sigfússon uppi á Íslandi, þótt ólíku hafi raunar verið saman að jafna, margra áratuga kúgun í Suður-Afríku og bankahruninu á Íslandi, þar sem ekki lést einn einasti maður. Ef til vill hefur einhverju ráðið líka um hin farsælu valdaskipti í Suður-Afríku, að Mandela var lögfræðingur, sem vissi, að lögin ættu að ráða, en ekki mennirnir. Þó verður að minna á, að mörgu hefur farið aftur í Suður-Afríku síðan, þótt fremur sé það samstarfsmönnum og eftirmönnum Mandelas að kenna en honum. Lýðræði er ekki lausnarorðið, heldur frelsi einstaklinganna. En hér er grein mín frá því fyrir 23 árum (með smávægilegum málfarsleiðréttingum):

Nelson Mandela fór sigurför um Bandaríkin í júnílok. Ég sat fyrir framan sjónvarpstækið mitt í Palo Alto í Kaliforníu og fylgdist með því, er hann ávarpaði Bandaríkjaþing, ræddi við fréttamenn og hélt ræður á fundum. Þetta var höfðinglegur, roskinn maður, sem vissi, hvað hann vildi. Hann hafði sýnt það með fangelsisdvöl í heilan aldarfjórðung, að hann var reiðubúinn að leggja margt á sig fyrir málstað sinn. Bandaríkjamenn og aðrir Vesturlandabúar, sem skammast sín í laumi fyrir áhyggjulaust líf, gátu ekki annað en sýnt honum virðingu. En ýmsar hugsanir sóttu á mig, á meðan ég virti Mandela fyrir mér á sjónvarpsskjánum. Getur verið, að maður, sem er heppilegur uppreisnarleiðtogi vegna sigurvissu sinnar, sjálfsöryggis og fórnarlundar, sé heppilegur endurreisnarleiðtogi? Hvað um Robespierre og Lenín?

Segðu mér, hverjir vinir þínir eru …

Efasemdir mínar ágerðust, eftir því sem Mandela sagði fleira. Í einum sjónvarpssalnum lýsti hann til dæmis yfir stuðningi við þá Gaddafi Líbíuleiðtoga, Arafat frá Palestínu og Fídel gamla Kastró, einræðisherra á Kúbu. „Segðu mér, hverjir vinir þínir eru …“ Arafat hefur enn ekkert ríki til að undiroka, en allir vita, hvern mann þeir Gaddafi og Kastró hafa að geyma. Gaddafi sendir sveitir manna hvert á land sem er til þess að drepa andstæðinga sína frá Líbíu. Hann aðstoðar hryðjuverkamenn eftir megni. Kastró kastar „óæskilegu fólki“ í dýflissur, eins og kúbverska skáldið Armando Valladares getur borið vitni um. Valladares sat lengi í fangelsi fyrir það eitt að vera ekki sameignarsinni. Á þrjátíu ára valdatíma Kastrós hefur að minnsta kosti einn tíundi hluti kúbversku þjóðarinnar flúið land. Kúba, Albanía, Norður-Kórea og Víetnam eru nú einu eftirlifandi sameignarlöndin. Þegar Mandela var spurður um það við sama tækifæri, hvort hann gerði sér grein fyrir mannréttindabrotum þeirra Kastrós og Gaddafis, svaraði hann því til, að hann hygðist ekki kveða upp dóma um innanríkismál á Kúbu og í Líbíu. En hann biður okkur Vesturlandamenn hins vegar um að kveða upp dóma um innanríkismál í Suður-Afríku. Hann lætur ekki þar við sitja. Hann óskar beinlínis eftir aðstoð til þess að steypa stjórnvöldum í Suður-Afríku. Og eftir fund með Bush tók Mandela það skýrt fram, að hann teldi koma til greina að beita vopnavaldi í Suður-Afríku. Eitt er víst: Mandela fetar ekki í fótspor þeirra Marteins Lúters Kings og Mahatma Gandís. Hann er haukur, en ekki dúfa, kommissar fremur en jógi, svo að orð Arthurs Koestlers séu notuð.

Frelsi og þjóðfrelsi 

Mandela virðist ekki vera sameignarmaður, kommúnisti. En hann er ekki frelsissinni, heldur þjóðfrelsissinni. Þetta er sitt hvað, eins og við höfum séð mörg átakanleg dæmi um frá Blálandi hinu mikla nú síðustu áratugi. Um leið og þjóðir álfunnar hafa öðlast frelsi frá hinum gömlu nýlenduherrum, hefur frelsi einstaklinganna innan þeirra horfið. Vegir og önnur mánnvirki ganga úr sér, nauðsynjavörur hætta að fást, einkafyrirtæki eru þjóðnýtt, menntamenn og hermenn arðræna í sameiningu bændur, og matvælaframleiðsla dregst þess vegna saman. Mér er minnisstætt, hvað suður-afrískur hagfræðiprófessor, sem ég ræddi við í Stellenbosch haustið 1987, sagði: „Við Búarnir gerum okkur grein fyrir því, að við verðum að deila völdum með svarta meiri hlutanum. En við erum ráðnir í því að verða ekki enn eitt afríkulýðveldið.“ Sporin hræða. Raunar er ekki mikil hætta á því, að Mandela og menn hans nái völdum í Suður- Afríku. Vegur Mandelas er miklu meiri í vestrænum fjölmiðlum en heima fyrir. Svartir menn í Suður- Afríku skiptast í marga ættbálka. Mandela er af Xhosa-stofni, sem berst á banaspjót við hina herskáu Zulu-menn, en leiðtogi þeirra er Bútulezi. Auk svarta meiri hlutans búa í landinu fimm milljónir hvítra manna, þrjár milljónir þeldökkra manna (kynblendinga) og ein milljón Indverja. Þótt vestrænar þjóðir geti vafalaust hugsað sér að ofurselja þessa hópa Mandela og mönnum hans, munu þeir ekki gefast upp baráttulaust. Yrði borgarastríð í Suður-Afríku, myndu hvítir menn líklega sigra. En heppilegast er auðvitað, að hinir ólíku hópar í Suður-Afríku nái samkomulagi um að lágmarka vald ríkisins, en hámarka frelsi einstaklinganna. Á þann hátt einn rofnar sú sjálfhelda óttans, sem allir hópar landsins sitja fastir í.

Hugarfar og ábyrgð

Þýski félagsfræðingurinn Max Weber gerði frægan greinarmun á siðferði hugarfars og ábyrgðar. Sumir hafa hreint hjarta, en skeyta engu um afleiðingar gerða sinna. Aðrir eru ef til vill minni hetjur, en gæta vandlega að því, hvað athafnir þeirra hafa í för með sér. Á Vesturlöndum hefur Nelson Mandela verið veginn og metinn á mælistiku hugarfarsins. Menn hafa dáðst að fórnarlund hans og siðferðilegu þreki. Auðvitað var aðskilnaðarstefnan, sem hvítir menn fylgdu til skamms tíma í Suður-Afríku, röng. En leiðin til frjálsrar Suður-Afríku er ekki fólgin í því að fela Mandela völd í stað de Klerks. Hún er fólgin í því að flytja sem flestar ákvarðanir af vettvangi stjórnmálanna og út á hinn frjálsa markað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband