Þjóðsögur um bankahrunið (8)

Í íslenskum þjóðsögum koma umskiptingar oft fyrir. Þeir eru úr álfheimum og jafnan ófrýnilegir. Ein nútímagerð af þessari þjóðsögu er, að íslenskir bankamenn hafi verið miklu síðri starfssystkinum sínum erlendis. Þeir hafi verið ættaðir úr álfheimum frekar en mannabyggð.

En bankahrunið verður ekki skýrt með því, að íslenskir bankamenn hafi verið öðrum verri. Til þess eru þrjár ástæður. Ein er rökleg, liggur í eðli máls. Bankarnir íslensku uxu ekki af sjálfum sér, heldur af því að þeir öfluðu sér viðskiptavina, jafnt fjármálastofnana, sem lánuðu þeim, og sparifjáreigenda, sem lögðu fé inn á reikninga þeirra. Skýringarefnið er aðeins flutt til um einn reit, ef sagt er, að íslenskir bankamenn hafi verið óreyndir glannar. Voru þá ekki erlendir viðskiptavinir þeirra jafnóreyndir glannar?

Önnur ástæða styðst við reynslu okkar. Við sjáum nú, fimm árum eftir hrun, að erlendir bankamenn eru engir englar. Stórbankinn HSBC varð nýlega að greiða risasekt fyrir aðild að peningaþvætti. Hinn virðulegi breski banki Barclays varð líka að greiða stórsekt, þegar upp komst, að ráðamenn hans höfðu tekið þátt í að hagræða vöxtum, svokölluðum LIBOR. Og fjármálafyrirtækið alkunna JP Morgan Chase varð að greiða stórsekt fyrir að hafa ekki haft nógu strangt eftirlit með því, að starfsfólk veitti réttar upplýsingar. Fréttir berast nú um ásakanir og ákærur á hendur danskra bankamanna vegna pappírsfyrirtækja og málamyndagerninga. Margar sögur eru líka sagðar af óhóflegum kaupaukum og eyðslu erlendra bankamanna fyrir fjármálakreppuna.

Þriðja ástæðan er, að nú vitum við, að margir erlendir bankar hefðu fallið, hefðu seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins ekki dælt í þá fé í fjármálakreppunni. Til dæmis kemur fram í skýrslu bandarískrar rannsóknarnefndar, að bandaríski seðlabankinn gerði þá gjaldeyrisskiptasamninga við svissneska seðlabankann upp á hvorki meira né minna en 466 milljarða Bandaríkjadala. Slíkir samningar jafngilda heimild til að prenta dali. Vegna þessara samninga gat svissneski seðlabankinn bjargað stórbönkum eins og UBS og Credit Suisse frá falli. Svipað er að segja um danska seðlabankann. Hann gerði gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann upp á 73 milljarða dala og gat því haldið uppi Danske Bank, sem ella hefði farið í þrot.

Íslenskir bankamenn voru hvorki betri né verri en bankamenn annars staðar og því síður umskiptingar úr álfheimum. Þeir fóru gáleysislega, en munurinn á þeim og starfssystkinum þeirra erlendis var, að þeim var ekki bjargað.      

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband