Þjóðsögur um bankahrunið (6)

Margt það, sem sagt hefur verið erlendis um bankahrunið íslenska 2008, er með annarlegum blæ. Ein þjóðsagan, sem háskólakennararnir Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir birta í mörgum erlendum blöðum og tímaritum, er um aðgerðir Seðlabankans í byrjun bankahrunsins, dagana 7. og 8. október 2008. Þau segja í New Left Review 2010: „Þegar hrunið hélt áfram af fullum þunga, festi Davíð Oddsson gengi krónunnar við myntkörfu nálægt því gengi, sem verið hafði. “ Þau segja síðan: „Þetta var líklega skammlífasta gengisfesting, sem sögur fara af. En hún entist nógu lengi til þess, að klíkubræður með réttar upplýsingar gátu losnað við krónur sínar á miklu hagstæðara gengi en síðar bauðst. Innanbúðarmenn segja, að milljörðum króna hafi verið skipt út fyrir gjaldeyri á þessum klukkutímum.“ Þau hafa endurtekið þessa sögu víðar.

Sagan er þó tilhæfulaus. Seðlabankinn festi ekki gengið þennan tíma, heldur gerði hann kauptilboð til viðskiptabankanna þriggja á genginu 131 króna á móti evru. Sérstaklega var tekið fram á vef bankans, bæði á íslensku og ensku, að ekki væri um gengisfestingu að ræða. Einnig kom þar fram, að í þessum viðskiptum seldu bankarnir Seðlabankanum alls 786 milljónir króna eða sex milljónir evra, ekki neina milljarða, eins og þau Wade og Sigurbjörg segja.

Hins vegar er alvarleg ásökun fólgin í orðum þeirra Wades og Sigurbjargar um, að „klíkubræður með réttar upplýsingar“ hafi gripið tækifærið til að selja Seðlabankanum krónur. Þetta kauptilboð takmarkaðist við millibankamarkað. Voru „klíkubræður Davíðs“ þá ráðamenn viðskiptabankanna? Sigurður Einarsson og Jón Ásgeir Jóhannesson? Ég spurði Wade, hvaða „innanbúðarmenn“ hefðu veitt þeim Sigurbjörgu upplýsingar. Hann nefndi mann í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið. Allir þrír nefndarmennirnir hafa sagt mér, að það sé rangt. Einnig nefndi Wade ónefndan starfsmann Landsbankans og hagfræðing í Bretlandi. Hvort sem þeir menn voru úr álfheimum eða mannabyggð, voru þeir ekki innanbúðarmenn. Þeir höfðu engan aðgang að innviðum Seðlabankans. En slíkan aðgang þurfti ekki heldur, því að allar upplýsingar voru tiltækar á vef bankans. Saga Wades og Sigurbjargar er þjóðsaga. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. september 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband