Þjóðsögur um bankahrunið (5)

Margar þjóðsögur hafa komist á kreik um bankahrunið íslenska árið 2008, enda spruttu þá óprúttnir náungar út úr öllum skúmaskotum og sögðu, að sinn tími væri kominn. Ein þjóðsagan hefur meira að segja verið kynnt í erlendum blöðum. Þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sögðu í breska marxistatímaritinu New Left Review 2010 um árin fyrir bankahrunið: „Hagstofa Íslands, sem sá um að safna gögnum, var kúguð, svo að eftirtekt vakti, til að stinga undir stól upplýsingum um síaukinn ójöfnuð tekna og eigna, og áræddi hún vart að vekja athygli á óhagstæðri þróun.“ Þau endurtóku þessa alvarlegu aðdróttun í Huffington Post sama ár.

Þegar Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands auglýsti fund með Robert Wade 6. september 2013, notaði ég tækifærið til að inna hann eftir því, hvað hann hefði til síns máls, enda átti fyrirlestur hans að vera um tekjudreifingu. Wade sagði enda margt um tekjudreifingu á Íslandi, vitnaði til Stefáns Ólafssonar prófessors og sýndi línurit frá honum. Þegar fyrirlestrinum lauk, stóð ég á fætur og spurði Wade: „Þú hefur skrifað í New Left Review og Huffington Post, að íslenska hagstofan hafi verið kúguð til að stinga undir stól upplýsingum um þróun í átt til ójafnari tekjudreifingar. Hver eru gögn þín fyrir þessari alvarlegu ásökun á hendur hagstofunni, og ef þú getur ekki lagt fram nein gögn, ertu þá reiðubúinn að draga þessa ásökun til baka?“

Wade sagði þá, að þessi spurning varðaði ekki efni fyrirlesturs síns, svo að hann myndi ekki svara henni. Hafði fyrirlesturinn þó verið um tekjudreifingu! En skýringin á því, að Wade varð svara fátt, er auðvitað, að hann hefur engin gögn í höndunum, enda er ásökun þeirra Sigurbjargar fráleit. Á hagstofunni vinna allra flokka menn, sem eiga það eitt sameiginlegt að vera samviskusamir og talnaglöggir. Hagstofan hefur ekki stungið neinum gögnum undir stól, heldur notað sömu reikningsaðferðir um tekjudreifingu og hagstofur annarra landa. Með þeim aðferðum mátti sýna, að tekjudreifingin var árið 2004 ekki ójafnari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum, þótt nokkrir óprúttnir náungar hefðu haldið öðru fram.

Séra Eggert Sigfússon á Vogsósum flokkaði sóknarbörn sín í skúma og lóma. Skúmarnir voru hrokafullir og óheilir, lómarnir hjartahreinir og lítillátir. Ekki þarf að hafa mörg orð um, í hvorri þvögunni þessir þjóðsagnahöfundar eru.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. september 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband