Þjóðsögur um bankahrunið (4)

Nokkrar bækur hafa birst á ensku um bankahrunið, og kennir þar margra grasa. Ein er Deep Freeze: Iceland’s Economic Collapse eftir Philipp Bagus og David Howden, sem kom út hjá Ludwig von Mises-stofnuninni í Alabama 2011. Þessum tveimur ungu hagfræðingum er mjög í mun að kenna Seðlabankanum íslenska um bankahrunið 2008. Hann hafi ábyrgst skuldir banka, svo að þeir hafi hegðað sér gáleysislega. Þeir Bagus segja á bls. 95: „Seðlabankinn, sem var undir stjórn Davíðs Oddssonar, sendi 13. nóvember 2001 frá sér fréttatilkynningu, sem fól í sér, að hann yrði þrautavaralánveitandi fjármálakerfisins.“

Í fyrsta lagi var Davíð Oddsson ekki seðlabankastjóri 2001. Í öðru lagi var þessi fréttatilkynning um, að ný lög um Seðlabankann hefðu tekið gildi. Ekki var í lögunum minnst á, að Seðlabankinn yrði þrautavaralánveitandi, heldur honum aðeins veitt heimild til að veita fjármálastofnunum lán. Í fréttatilkynningunni sagði, að samkvæmt lögunum væri Seðlabankanum veitt heimild til að veita þrautavaralán. En slík heimild felur ekki í sér skyldu.

Í þriðja lagi vísaði Davíð sjálfur því beinlínis á bug, að Seðlabankinn þyrfti undir öllum kringumstæðum að gegna slíku hlutverki. Hann sagði á blaðamannafundi í Seðlabankanum 8. maí 2008: „Skyndilega hefur það gerst, þegar fjárþurrð skapast, að þá kemur upp sú kenning, að seðlabankar eigi að vera einhvers konar ábyrgðarsjóður banka, í hvaða stærð sem þeir fara. Þetta hefur maður nú aldrei heyrt um áður, að bankar eigi að stækka eins og þeim hentar og taka þá áhættu, sem þeim hentar, en síðan beri almenningi, fyrir meðalgöngu síns seðlabanka, að vera einhvers konar ábyrgðarsjóður út í það óendanlega fyrir slíka starfsemi.“ Davíð bætti við, að vissulega hlyti Seðlabankinn að reyna að tryggja peningalegan stöðugleika og stuðla að fjármálastöðugleika.

Það er því enn ein þjóðsagan, að Seðlabankinn hafi undir forystu Davíðs Oddssonar ýtt undir ábyrgðarleysi fjármálastofnana.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. september 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband