Þjóðsögur um bankahrunið (3)

Ég hef síðustu mánuði reynt að lesa allar þær bækur og ritgerðir, sem komið hafa út á ensku um bankahrunið. Þar hef ég rekist á fjöldann allan af ónákvæmum staðhæfingum. Til dæmis kom 2011 út bók hjá stofnun, sem kennd er við minn gamla lærimeistara (þótt ég hitti hann raunar aldrei), austurríska hagfræðinginn Ludwig von Mises, og hefur hún bækistöðvar í Alabama í Bandaríkjunum. Bókin nefnist Deep Freeze: Iceland’s Economic Collapse og er eftir tvo unga hagfræðinga, Philipp Bagus og David Howden. Þeir rekja bankahrunið til rangrar stefnu Seðlabankans, sem hafi skapað þenslu.

Eflaust má gagnrýna stefnu Seðlabankans í ýmsum málum, en gagnrýni þeirra Bagusar og Howdens missir marks vegna vanþekkingar þeirra á íslenskum aðstæðum. Þeir segja til dæmis á bls. 12–13, að seðlabankinn hafi minnkað bindiskyldu úr 4% í 2% árið 2003. „Ólíkt starfsbræðrum sínum í öðrum seðlabönkum minnkaði Davíð Oddsson (áður forsætisráðherra) bindiskylduna, sem átti að knýja banka til að hafa varasjóði, þegar að kreppti.“ En Davíð var í fyrsta lagi ekki seðlabankastjóri árið 2003. Í öðru lagi var bindiskyldan þá færð að kröfu bankanna sjálfra niður í hið sama og í grannríkjunum, svo að þeir gætu keppt við sömu skilyrði. Í þriðja lagi var leyft síðar, vorið 2008, að bindiskyldan næði ekki til innstæðna í erlendum útbúum eða dótturfélögum bankanna, enda hnigu þau rök að því, að þeir peningar væru geymdir erlendis og gætu því ekki valdið þenslu á Íslandi. Beitti Yngvi Örn Kristinsson, þá hagfræðingur í Landsbankanum, sér sérstaklega fyrir þessum rýmkuðu reglum um bindiskyldu.

Spakvitringar og spámenn kaffihúsanna og spjallþáttanna hafa hins vegar tuggið það hver eftir öðrum, að ein ástæðan til bankahrunsins hafi verið lækkun bindiskyldu hér á landi. Hún hafði nákvæmlega engin áhrif á bankahrunið. Orsakir þess voru aðrar. Það er einkennilegt, að þessir tveir ungu hagfræðingar á vegum Ludwig von Mises-stofnunarinnar hafi ráðist í að skrifa heila bók um íslenska bankahrunið án þess að kynna sér að ráði aðstæður á Íslandi. Þess í stað segja þeir þjóðsögur um bankahrunið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband