Stórfróðlegur danskur sjónvarpsþáttur

Danska heimildarmyndin „Sikke en fest“ (En sú veisla), sem sýnd var fyrst í danska ríkisútvarpinu haustið 2012 í þremur hlutum, er stórfróðleg. Þar kemur meðal annars fram, að Danske Bank, sem var að miklum hluta í eigu stærstu viðskiptavinanna, riðaði til falls haustið 2008 og hefði fallið, hefði danski seðlabankinn ekki bjargað honum með fé, sem fékkst frá Seðlabanka Bandaríkjanna. Hafði Danske Bank vaxið mjög ört árin á undan.

Hljómar lýsingin á þessu ástandi ekki kunnuglega?

Danske Bank fór mikinn um íslensku bankana síðustu misserin fyrir hrun þeirra, en allar viðvaranir hans höfðu áður komið fram í einkasamtölum frá seðlabankanum, eins og ég get staðfest. En heitir þetta ekki að kasta steinum úr glerhúsi?

Seðlabanki Bandaríkjanna veitti seðlabönkum Danmerkur og Noregs fimm milljarða dala fyrirgreiðslu (lánalínur) hvorum og seðlabanka Svíþjóðar tíu milljarða fyrirgreiðslu. Íslendingum, sem höfðu verið dyggir bandamenn Bandaríkjanna áratugum saman og lagt þeim til lífsnauðsynlega hernaðaraðstöðu í landi sínu í heitu stríði og köldu, var neitað um sams konar fyrirgreiðslu. Bandaríski seðlabankinn veitti einnig Sviss, sem hafði jafnstórt bankakerfi hlutfallslega og Ísland, drjúga fyrirgreiðslu, þótt Sviss hefði aldrei verið bandamaður Bandaríkjanna frekar en Svíþjóð.

Jafnframt lokaði breska ríkisstjórnin í einu vetfangi, skyndilega og skýringarlaust, útibúum og dótturfélögum íslensku bankanna í Bretlandi, á sama tíma og hún lagði stórfé fram til að bjarga öðrum bönkum, sem margir voru í eigu útlendra fyrirtækja. Sumir þessara banka, til dæmis Barclays og HSBC, hafa orðið uppvísir að peningaþvætti, ólöglegri hagræðingu vaxta, ólöglegri fegrun afkomu og öðrum efnahagsbrotum að ógleymdri greiðslu ofurlauna til stjórnenda. RBS virðist hafa verið gjaldþrota (þrátt fyrir að hann væri enn eitt ofurlaunafyrirtækið), en honum var bjargað með ærnum fjárútlátum. Breska ríkisstjórnin lét sér ekki nægja að loka útibúum og dótturfélögum íslensku bankanna, heldur setti hún um skeið fjármálaráðuneytið íslenska og seðlabankann í lista um hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaeda og Talibana, og Landsbankinn var lengi á þeim lista, með þeim afleiðingum, að allar lánsfjárlínur til og frá Íslandi lokuðust um hríð.

Hvað gerðist? Hvað skýrir framkomu Bandaríkjamanna og Breta? Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var allt of bundin stað og stund. Nefndin leitaði langt yfir skammt. Margt er enn ósagt og óskýrt um bankahrunið. Litlar kerlingar reyndu síðan að nota skýrsluna til að fella stjórnmálaandstæðinga sína, og verður skömm þeirra lengi uppi, eins og hinnar hefnigjörnu Hallgerðar á ögurstund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband