Laugarvatn

Skemmtilegt var að sjá formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kynna stjórn sína á Laugarvatni vorið 2013. Sá staður var ekki í miklu dálæti hjá sjálfstæðismönnum á fjórða áratug, þegar Jónas Jónsson frá Hriflu fór mikinn og lét reisa héraðsskóla á Laugarvatni. Orðheppinn sjálfstæðismaður, Árni Pálsson prófessor, afþakkaði eitt sinn boð á samkomu þangað með þessum orðum: „Þangað fer ég ekki. Þar er hvert steinn stolinn.“ Sagði Jónas frá þessu sjálfur seinna.

Þegar Alþýðuflokksmenn settu það skilyrði fyrir stjórnarmyndun 1934, að Jónas frá Hriflu yrði ekki ráðherra, fór einn þingmaður flokksins, Vilmundur Jónsson, til Laugarvatns til fundar við Jónas. Áttu þeir lengi tal saman, fram á aðfaranótt 4. júlí 1934. Jónas sagði þá: „Ég er fæddur til að stjórna!“ Vilmundur svaraði: „Það er einmitt það eina, sem þú átt ekki að gera!“

Aðrir kunnu betur að  meta Jónas. Sú saga varð fleyg um allt land, að gerð hefði verið skoðanakönnun meðal nemenda í héraðsskólanum um það, hver væri mesti maður heims, lífs eða liðinn, og hefði Jónas þá fengið einu atkvæði fleira en Jesús Kristur. Hygg ég, að þetta sé gamansaga frekar en sannleikur, en fyrst rakst ég á hana á prenti í Vikunni 1940.

Halldór Laxness sat stundum á Laugarvatni á sumrin og skrifaði bækur, og orti bekkjarbróðir hans úr Menntaskólanum, Tómas Guðmundsson:

Og ungu skáldin skrifa enn í dag.

Eitt skrifar bækur sínar

í Moskva, London, Laugarvatni og Prag

og í lestinni til Vínar.

En hvað sem öðru líður, var Jónas frá Hriflu hæfileikamaður, sem sá sumt skýrar en samtíðarmennirnir. Hann taldi Íslendinga til dæmis eðlilega bandamenn Breta og Bandaríkjamanna á alþjóðavettvangi, varaði við hættunni af kommúnismanum og taldi listina umfram allt leitina að hinu fagra, en skattgreiðendum bæri ekki að leggja fram fé til listamanna, sem geifluðu sig aðeins framan í þá með hatursorð á vörum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júní 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband