Sjötta hneykslið í kringum Má Guðmundsson

Ég sé ekki betur en sjötta hneykslið sé komið til sögunnar um Má Guðmundsson: álit umboðsmanns Alþingis í kæru Heiðars Guðjónssonar fjárfestis gegn honum:

  1. Már sýndi dæmalaust dómgreindarleysi með því að höfða mál gegn bankanum til að fá hærri laun, eftir að forverar hans höfðu verið hraktir úr starfi með lagabreytingum og samið við hann í laumi um ráðningu hans, en á sama tíma var kreppa í landinu.
  2. Már braut eflaust einhverjar reglur, annaðhvort lagalegar eða siðferðislegar, þegar hann lét bankann greiða málskostnað sinn gegn bankanum. Auðvitað vissi Már af því frá byrjun. Þessum greiðslum var haldið leyndum fyrir bankaráðinu.
  3. Ekki þarf heldur að rifja upp þá raunasögu, þegar Már misnotaði Seðlabankann til að veita ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar liðsinni í Icesave-málinu.
  4. Már kostaði landsmenn hugsanlega um sextíu milljarða króna vegna handvammar í meðferð veðsins fyrir neyðarláninu til Kaupþings í bankahruninu. Talsvert var talað um þetta lán fyrir hálfu ári, en af einhverjum ástæðum eru þær raddir allar þagnaðar. Már seldi nokkrum fjárfestum í Danmörku veðið, FIH-banka, með þeim kjörum, að þeir þurftu aðeins að greiða útborgun, en réðu í raun eftirstöðvunum. Þeir hafa stórgrætt á þessum kaupum og þjóðin að sama skapi stórtapað.
  5. Már braut stórkostlega af sér í málinu, sem hann rak af ofurkappi gegn Samherja á Akureyri, einu myndarlegasta útgerðarfyrirtæki landsins, en hann hefur orðið að láta það niður falla. Þá sögu þarf alla að segja. Hún er flóknari og verri en þegar hefur komið fram. Er ekki hægt að kalla þetta annað en ofsóknir í garð Samherja.
  6. Már braut bersýnilega af sér gegn Heiðari Guðjónssyni, eins og umboðsmaður Alþingis bendir á í áliti sínu og Morgunblaðið hefur skýrt frá. Fór Már langt fram úr lagaheimildum sínum í viðskiptum við Heiðar, vísaði á bug tilboði frá honum og kærði hann til lögreglu. 

Þegar horft er á þetta, er síðan hollt að hafa í huga, að fjöldi manns, til dæmis fyrrverandi starfsmenn bankanna, hefur lent í stórkostlegum hremmingum vegna rannsókna á högum þess. Þetta fólk á hins vegar ekki að njóta minna réttaröryggis en Már Guðmundsson. Eitt og hið sama á yfir alla að ganga. Hafa verður líka í huga, að fjölmennur hópur blaðamanna og álitsgjafa hefur vart náð andanum af hneykslun yfir ýmsum málum, stórum og smáum og misjafnlega alvarlegum, hin síðari ár. Hvar er þessi hópur nú, þegar hvert málið rekur annað um Má Guðmundsson? Hér gildir líka: Eitt og hið sama á yfir alla að ganga.

Ég sat í bankaráði Seðlabankans 2001–2009. Ég man ekki eftir neinu sambærilegu við það, sem Már Guðmundsson hefur gert. Mjög var þá gætt að því að fara eftir settum reglum og hagsmunum Íslendinga jafnan fylgt fast eftir. Sjálfur hef ég áhyggjur af því, að Már semji nú af sér við erlenda kröfuhafa viðskiptabankanna, eins og hann gerði við dönsku fjárfestana, sem keyptu FIH-banka.


Bloggfærslur 9. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband