Hverjir geta talað í nafni þjóðarinnar um stjórnarskrá?

„Þjóðin“ hefur valið stjórnarskrá, segja Gunnar Smári, Þorvaldur Gylfason og fleiri. Í kosningum til stjórnlagaþings var þátttakan aðeins 36,8%. M.ö.o. höfðu 63,2% ekki áhuga. Kosningarnar voru síðan dæmdar ólöglegar. Þá skipaði stjórnin sama fólk í „stjórnlagaráð“. Kjörsóknin um tillögur þess var 48,4%. M.ö.o. höfðu 51,6% þjóðarinnar ekki áhuga. Af þeim, sem kusu, vildu 67% miða við uppkastið frá „stjórnlagaráðinu“. Þetta merkir, að einn þriðji kjósenda samþykkti þetta uppkast. Tveir þriðju hluta þjóðarinnar samþykktu það ekki, mættu annaðhvort ekki á kjörstað eða greiddu ekki atkvæði með því. Til samanburðar var kjörsóknin vegna lýðveldisstjórnarskrárinnar 1944 98,4%, og hana samþykktu 98,5% þeirra, sem greiddu atkvæði. Getum við, sem styðjum gömlu, góðu lýðveldisstjórnarskrána, ekki frekar talað í nafni þjóðarinnar en þessir fulltrúar eins þriðja hluta þjóðarinnar, sem leist vel á uppkast hins ólöglega „stjórnlagaráðs“, en það hóf hvern fund á að syngja saman og hefur síðan verið að kynna skrípaleik sinn erlendis?


Bloggið sem hvarf

Hagfræðingurinn Gauti B. Eggertsson birti á bloggi sínu 8. október 2009 lista um mestu mistökin, sem gerð hefðu verið fyrir og í bankahruninu íslenska. Hann hefur nú eytt þessu bloggi, en fjölmiðlum í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar þótti það fréttnæmt eins og allt annað, sem var til þess fallið að gera lítið úr Davíð Oddssyni. Í Fréttablaðinu og á visir.is var bloggið því endursagt á þeim tíma.

Gauti skrifaði: „Stærstu mistökin eru líklega fólgin í veðlánaviðskiptum Seðlabanka Íslands sem ollu gjaldþroti hans. Í þessum viðskiptum töpuðust um 300 milljarðar, sem jafnast á við um 1 milljón á hvert mannsbarn á Íslandi, eða um 5 milljónir á hverja þriggja barna fjölskyldu. Þessi mistök lenda beint á íslenskum skattgreiðendum.“

Gauti getur þess ekki, að reglur Seðlabankans um veð voru þrengri en flestra annarra banka, til dæmis Seðlabankans bandaríska, en þar starfaði Gauti frá 2004 til 2012. Hann nefnir ekki heldur, að með Neyðarlögunum frá 6. október 2008 var kröfum Seðlabankans á bankana skipað aftur fyrir kröfur innstæðueigenda. Olli það miklu um bókfært tap hans þá. Raunar kemur fram í nýlegri bók Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, að líklega verður tap skattgreiðenda af bankahruninu ekkert.

Tveir dómar, hvor í sínu landi, skipta hér síðan máli, þótt þeir væru kveðnir upp, eftir að Gauti skrifaði bloggið. Vorið 2011 gerði Hæstiréttur Bandaríkjanna Seðlabankanum þar í landi eftir mikinn málarekstur að upplýsa um veðlán til banka í lánsfjárkreppunni. Sannaðist þá, eins og ég hef áður bent hér á, að bankinn hafði lánað gegn miklu lakari veðum en Seðlabankinn íslenski.

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu vorið 2016 (í máli nr. 130/2016), að ekkert hefði verið athugavert við veðlán Seðlabankans, og yrði því þrotabú eins lántakandans að endurgreiða honum skuld sína. Seðlabankinn hefði ekki brotið neinar reglur.

Skiljanlegt er því, að Gauti skyldi eyða bloggi sínu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. september 2017.)


Deilt um einstefnuna í Háskólanum

Ég hef í nokkrum færslum á Facebook deilt á rétttrúnaðarkórinn, sem tekið hefur við af frjálsa samkeppni hugmynda í vísindum. Fyrst skrifaði ég:

Norræna félagið o. fl. halda á næstunni fund um norsku kosningarnar: Þar er aðalræðumaður blaðamaður af Klassekampen, öfgavinstrablaði (Mímir Kristjánsson, fyrrv. formaður Rød ungdom), en síðan eru í pallborði framkvæmdastjóri Vinstri grænna (Björg Eva Erlendsdóttir), formaður ungra pírata (Björt Guðjónsdóttir) og Magnús Þór Hafsteinsson.

Síðan skrifaði ég um fyrirhugað málþing um „Umhverfisógn og þörfina á nýrri siðbót“:

Á fundi Alþjóðamálastofnunar um norsku kosningarnar tala þrír einstaklingar yst til vinstri (framkvæmdastjóri Vinstri-grænna, blaðamaður á Klassekampen og formaður Ungra pírata) og einn á miðjunni (var í Frjálslynda flokknum sáluga á Íslandi). Hér er annað dæmi um hina furðulegu einstefnu, sem er að vera sífellt algengari í Háskólanum. Allir vita, hvað þessi kór mun syngja saman, og engin rödd mun hljóma öðru vísi.

Með færslunni setti ég mynd af fundarboðinu um umhverfisógnina og þörf á siðbót. Í þriðja skipti skrifaði ég um fyrirlestur um nýfrjálshyggju:

Screen Shot 2017-09-01 at 09.16.20

Háskólinn heldur áfram einstefnunni. Aðeins eru boðnir fram fyrirlesarar af vinstri væng. Í kynningu á þessum er sagt: „Guy Standing er breskur hagfræðingur við Lundúnarháskóla sem er þekktur fyrir gagnrýni sína á kapítalisma og viðtekna efnahagslega hugsun.“ Hann hefur með öðrum sömu skoðanir og 98% samkennara minna og 5,7% þjóðarinnar.
 

Andri Sigurðsson skrifaði þá á Facebook vegg minn:

Hannes, neoliberalismi er það sem við búum við. Hversvegna ættum við ekki að gagnrýna hann? Það er hin vísindalega aðferð. Hvernig ætlar þú að þróast áfram annars? Nei alveg rétt, þú ert sáttu við ástandið. Það er þannig sem við stöðnum.

Ég svaraði honum:

Mér finnst sjálfsagt að gagnrýna nýfrjálshyggju (og hef raunar ekkert á móti heitinu). En þá verður að vera skýrt, við hvað er átt, en nýfrjálshyggja sé ekki notuð sem samheiti um allt, sem venjulegt fólk hlýtur að vera mótfallið. Eðlilegast væri að leggja í heitið þá merkingu, að þetta sé hreyfing, sem þau Thatcher og Reagan beittu sér fyrir og framkvæmdu og sem þeir Hayek og Friedman voru hugmyndasmiðir að. Ég gæti kannast við mig í þeirri merkingu sem nýfrjálshyggjumaður. Og þá verður líka að tryggja, að andstæð sjónarmið nýfrjálshyggjumannanna sjálfra komist líka að, því að vísindin eru frjáls samkeppni hugmynda. En í Háskólanum er römm andstaða frá þessum 98%, sem hafa sömu skoðanir og 5,7% þjóðarinnar, við það að hleypa andstæðum sjónarmiðum að. Þetta er jaðar, sem heimtar að vera miðja, mús, sem kynnir sig sem ljón, þúfa, sem vill heita fjall. Ég gæti nefnt mörg skýr dæmi um það. Á ég að nefna einhver?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband