Athugasemd við bók Árna Bergmanns

herganga_kommu_769_nista.jpgÉg hafði ánægju af að lesa sjálfsævisögu Árna Bergmanns, sem kom út fyrir jólin. Hún er skrifuð í notalegum rabbtón, þótt hún lýsi miklum umbrotatímum, ekki aðeins í veröldinni, heldur líka í sál Árna, sem kemur ungur og sannfærður kommúnisti út til Ráðstjórnarríkjanna 1954 og verður vitni að sögulegu uppgjöri Khrústsjovs við Stalín 1956 og hlákunni í nokkur ár eftir það. Arnór Hannibalsson, skólabróðir hans í Moskvu, snerist gegn kommúnisma, og var honum útskúfað úr vinstri hreyfingunni. Árni hélt hins vegar áfram að starfa þar og gerir enn: Hann sat ásamt mörgum öðrum rosknum sósíalistum á hinum fræga fundi Sagnfræðingafélagsins um íslensku kommúnistahreyfinguna 23. nóvember 2011 og horfði ásökunaraugum á mig, þegar ég leyfði mér að benda framsögumönnum á alls kyns missagnir og rökvillur í máli þeirra. Þögnin frá bekknum, þar sem þeir Árni sátu saman, var þung, svo þung og þétt, að ég hefði líklega rekist á hana og hrasað, hefði ég gengið nær.

Árni minnist á einum stað í bókinni á mig. Hann heldur því þar fram, að málin séu ekki eins einföld og þeir Hannes H. Gissurarson og Þór Whitehead vilji vera láta í bókum sínum um íslenska kommúnista. Sagan, sem hann segir því til stuðnings, er, að hann hafi á stúdentsárunum í Moskvu hlustað á ýmsar raunasögur stúdenta frá Eystrasaltsríkjunum um kúgunina þar, fjöldabrottflutninga, ritskoðun, aftökur, pyndingar, virðingarleysi fyrir tungu og menningu þessara fámennu þjóða. Þeir Arnór Hannibalsson hafi hitt fulltrúa Sósíalistaflokksins á 20. flokksþingi kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna 1956, þá Kristin E. Andrésson, forstjóra Máls og menningar, og Eggert Þorbjarnarson, framkvæmdastjóra Sósíalistaflokksins, og rætt þetta við þá. Eggert hafi tekið því fjarri og vísað til hrifningarræðu eins fulltrúa frá Eystrasaltslöndunum á flokksþinginu. Kristinn hafi hins vegar sagt, að vel gæti verið eitthvað til í þessu hjá strákunum.

Þessi saga Árna sýnir hins vegar ýmislegt annað en hann vill vera láta. Í fyrsta lagi sýnir hún, að forystumönnum íslenskra kommúnista, eins og Kristni E. Andréssyni, var vel kunnugt um kúgunina í landinu. Kristinn var hins vegar ástríðufullur sálnaveiðari, sem vildi ekki styggja þessa ungu menn, heldur leiða þá á rétta braut, og sú braut var að styðja Ráðstjórnarríkin og fá á móti stuðning frá þeim. Fyrirtæki Kristins, Mál og menning, fékk nægan fjárstuðning frá Moskvu til að geta reist tvö stórhýsi í Reykjavík, Þingholtsstræti 27 og Laugaveg 18. Það fékk sams konar blóðpeninga frá Moskvu og ýmis þýsk fyrirtæki frá nasistum. (Gullið, kolin og timbrið, sem ráðstjórnin seldi til Vesturlanda, var unnið af vinnuþrælum.)

Í öðru lagi hvikaði Kristinn E. Andrésson aldrei opinberlega frá stuðningi við kommúnistaríkin í austri, þótt stundum hallaði hann sér frekar að Kínverjum en Rússum. Öll gagnrýni á kommúnistaríkin var fram til 1968 bönnuð í tímaritum og blöðum sósíalista, Tímariti Máls og menningar, Rétti og Þjóðviljanum. Arnór Hannibalsson fékk ekkert birt í þessum tímaritum og blöðum. (Árni segir í sjálfsævisögu sinni, að Arnór geti sjálfum sér um kennt: Hann hafi krafist þess, að forystumenn sósíalista gerðu yfirbót fyrir Stalínsþjónkun sína. En sú krafa kom ekki strax fram. Greinar Arnórs voru í fyrstu aðallega gagnrýni á stalínismann í Rússlandi.) Sigfús Daðason skáld, aðstoðarforstjóri Máls og menningar, samdi grein til að mótmæla innrás Rauða hersins í Tékkóslóvakíu 1968, en hún var aldrei birt. Magnús Kjartansson neitaði að birta ályktun, sem Gísli Gunnarsson og nokkrir aðrir Æskulýðsfylkingarmenn höfðu samþykkt 1966 til að mótmæla réttarhöldum yfir rithöfundum í Rússlandi, uns Gísli hótaði að senda hana til birtingar í Morgunblaðinu. Þá lét Magnús undan með ólund.

Í þriðja lagi er fróðlegt að lesa í skjölum í Moskvu, sem aðgangur var veittur að eftir fall kommúnismans, að Einar Olgeirsson beitti sér fyrir því, að Árni Bergmann yrði vorið 1959 fréttaritari Þjóðviljans í Moskvu. Fékk hann góð laun frá kommúnistaflokki Ráðstjórnarríkjanna og afnot af tveggja herbergja íbúð, sem var mikill munaður í Moskvu á þeirri tíð. Í leynibréfi til miðstjórnar kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna kvað Einar Árna einmitt heppilegan í fréttaritarastarfið, vegna þess að hann gæti frætt íslenska lesendur „um Eystrasaltslöndin, þar sem berjast þarf gegn lygum afturhaldsaflanna“. Naut Árni þessara kjara í þrjú ár, uns hann sneri heim til Íslands 1962. Lesa má nánar um allt þetta í bók minni, Íslenskir kommúnistar 1918–1998.

Ég held þess vegna, að við Þór Whitehead höfum ekki einfaldað neitt flókið mál í bókum okkar um íslenska kommúnista og sósíalista. Málið var einmitt einfalt. Íslenskir kommúnistar og sósíalistar voru lengst af á mála hjá Kremlverjum. Þeir voru erindrekar erlends valds, sumir óðfúsir eins og Kristinn E. Andrésson og Einar Olgeirsson, aðrir ef til vill hálfnauðugir vegna framfærslu- og fjölskyldusjónarmiða.

Annað mál er, að skýra þarf sérstaklega, hvers vegna íslenskir sósíalistar nutu miklu meiri áhrifa en skoðanasystkin þeirra í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, þar sem flokkar kommúnista voru jaðarflokkar. En þegar ég bauðst til að reyna að skýra það í fyrirhugaðri fundaröð Sagnfræðingafélagsins vorið 2016 um fjöldahreyfingar á Íslandi, var boðinu synjað. Ég skyldi ekki fá að rjúfa hina þungu þögn, eins og í nóvember 2011. Ég skyldi vera í banni eins og Arnór Hannibalsson forðum. Eini munurinn er sá, að ekki var hægt að útskúfa mér, því að ég var aldrei í liðinu.

(Skopmyndin, sem hlýtur að vera eftir Halldór Pétursson, birtist í Morgunblaðinu 1956 og sýnir hergöngur kommúnista, fyrst Einar Olgeirsson og Brynjólf Bjarnason 1930, þegar þeir stofnuðu kommúnistaflokkinn, síðan Einar, Brynjólf og Kristin 1938, þegar þeir stofnuðu Sósíalistaflokkinn, og þá Einar og Kristin með grímur af Hannibal Valdimarssyni, þegar þeir stofnuðu með Hannibal Alþýðubandalagið 1956.)


Gallagripir: Bækur Inga Freys og Ólafs

hamskiptin-175x263.jpgVetrarhefti Þjóðmála kom út fyrir skömmu, barmafullt af fróðleik. Ég á þar ritgerð um tvær nýlegar bækur, sem tengjast bankahruninu, Hamskiptin eftir Inga Frey Vilhjálmsson, blaðamann og heimspeking, og Skuggi sólkonungs eftir Ólaf Arnarson, hagfræðing og álitsgjafa. Ég gagnrýni báðar bækurnar talsvert, enda eru þær stórgallaðar, og er þó bók Ólafs sýnu verri.

kvr5862.jpgÉg nota tækifærið til að hrekja ýmsar þjóðsögur, missagnir og hálfsannleik um bankahrunið, til dæmis um styrkjamál Sjálfstæðisflokksins (Samfylkingin fékk mjög háa styrki), REI-málið (Dagur og Össur gengu erinda auðjöfranna), ofvöxt bankanna (þeir voru ekki stærri hlutfallslega en í Sviss og Skotlandi), slakt eftirlit vegna frjálshyggjusjónarmiða (Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið voru undir stjórn Samfylkingarinnar), samtöl Davíðs Oddssonar við bankastjóra, endalok Þjóðhagsstofnunar, kaupin á Landsbankanum (Björgólfsfeðgar greiddu tvo þriðja hluta kaupverðs hlutabréfa sinna af eigin fé og fengu einn þriðja að láni í Búnaðarbankanum), bréf Mervyns Kings, Rússalánið (sem var raunhæft, eins og Tryggvi Þór Herbertsson hefur staðfest, en Rússar hættu við, eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stökk inn í málið), setningu hryðjuverkalaganna (sjónvarpsviðtal við Davíð Oddsson átti engan þátt í henni), „gjaldþrot“ Seðlabankans (áróðursorð án merkingar) og skipan Svavars Gestssonar sem sendiherra (sem Ólafur Arnarson kennir Davíð Oddssyni um!).

Hér má nálgast ritgerðina og hlaða henni niður. Ég ráðlegg hins vegar öllum áhugamönnum um þjóðmál að kaupa heftið í næstu bókabúð eða gerast áskrifendur.


Rússneska ráðgátan

c88d0d6a-61c3-45b9-a2b9-89e3ea5bf956.jpgBandaríski fjárfestirinn Bill Browder flutti áhrifamikinn fyrirlestur í hátíðasal Háskóla Íslands 20. nóvember síðast liðinn. Hann er sonarsonur Earls Browders, formanns kommúnistaflokks Bandaríkjanna, en gerðist sjálfur auðsæll fjárfestir í Rússlandi eftir hrun kommúnismans. Eftir að hann var hrakinn úr landi og rússneskur vinur hans og samverkamaður pyndaður til dauðs, skar hann upp herör gegn Pútín. Þessu segir Browder frá í hinni læsilegu bók Eftirlýstur, sem kom út nú fyrir jólin og helst má kalla raunsannan reyfara.

Hvernig stendur á því, að Rússar með sinn stórkostlega menningararf, frjósömu jörð, skóga, gullnámur og olíulindir skuli ekki hafa komið sér upp því skipulagi frelsis og lýðræðis, sem við Vesturlandamenn teljum sjálfsagt? Churchill sagði í útvarpsræðu árið 1940: „Ég get ekki sagt hér fyrir um gerðir Rússa. Þeir eru ráðgáta, vafin í leyndardóm, langt inni í dularheimi.“

Sumir telja svarið vera, að arfur Rússa sé austrænn. Kúgunin sé þar hefð. Þetta sagði Halldór Laxness mér, þegar við ræddum á Gljúfrasteini 1975 um skoðanaskipti hans í stjórnmálum: „Ég breytti um skoðun, þegar ég áttaði mig á því, að tartarakhaninn situr enn í Kreml.“

En hvílir sökin á hremmingum Rússa á 20. öld ekki frekar á innfluttum, vestrænum hugmyndum? Keisarastjórnin þótti stundum harkaleg, en hún komst ekki í námunda við stjórn kommúnista. Árin 1825–1917 voru 6.360 manns dæmd til dauða í Rússaveldi og af þeim var 3.932 dómum framfylgt. Bolsévíkar höfðu ekki haft völd í fjóra mánuði, þegar þeir höfðu tekið fleiri af lífi en keisararnir í heila öld. Samtals eru fórnarlömb kommúnismans þar eystra talin vera um 20 milljónir.

Pútín er horfinn frá hinni innfluttu, vestrænu hugmynd um endursköpun mannlegs skipulags. En er hann horfinn frá landvinningastefnu keisaranna og tartarakhananna? Hann hertók Krímskaga. Uppreisnarmenn, sem hann styður, skutu niður farþegaþotu yfir Úkraínu. Hann veifar kjarnorkuvopnum framan í Eystrasaltsþjóðirnar og Pólland. Enn er Rússland ráðgáta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. desember 2015.)


Hverjir hittu harðstjórana?

kapa_arason.jpgBókin Barnið sem varð að harðstjóra eftir Boga Arason, sem hefur um árabil skrifað erlendar fréttir í Morgunblaðinu, fær góða dóma, eins og hún á skilið. Þessi fróðlega og læsilega bók er um nokkra helstu einræðisherra tuttugustu aldar, en einkum um, hvað hafi mótað þá í æsku. Þeir Stalín, Hitler og Maó eru auðvitað þar fyrirferðarmestir. Hvaða Íslendingar hittu þessa menn?

Eini Íslendingurinn, sem ég veit til þess, að talað hafi við Stalín, er Jens Figved, sem var 1929–1932 í leynilegum þjálfunarbúðum í Moskvu. Figved átti við Stalín símtal um að fá að gefa út eftir hann ritgerð, sem birtist á rússnesku haustið 1931. Leyfið fékk Figved: Bréfið birtist á íslensku í fjölritinu Bolsjevikkanum í maí 1934. Nokkrir Íslendingar hlustuðu einnig á Stalín tala, til dæmis Halldór Kiljan Laxness á kosningafundi í Bolshoj-leikhúsinu í desember 1937 og Brynjólfur Bjarnason á 19. þingi kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna í október 1952.

Mér er aðeins kunnugt um tvo Íslendinga, sem hittu Hitler til að skiptast á einhverjum orðum við hann. Annar var Helgi P. Briem, fulltrúi Íslands í danska sendiráðinu í Berlín í lok fjórða áratugar. Í embættiserindum rakst hann stundum á Hitler. Hinn var Gunnar Gunnarsson, sem gekk á fund Hitlers vorið 1940 til að tala máli Finna. Hins vegar hlustuðu margir Íslendingar á Hitler halda ræður á fundum, til dæmis Kristinn E. Andrésson og Bjarni Benediktsson, á meðan þeir stunduðu nám í Þýskalandi haustið 1931.

Flestir Íslendingar virðast þó hafa hitt Maó. Fimm manna sendinefnd sat veislu harðstjórans í Beijing haustið 1952, þar á meðal Jóhannes úr Kötlum og Þórbergur Þórðarson. Þeir Maó og Einar Olgeirsson skiptust líka eitt sinn á orðum. Maó heilsaði enn fremur Steinþóri Guðmundssyni og tveimur öðrum fulltrúum Sósíalistaflokksins í veislu í Beijing haustið 1956. Tekin var ljósmynd af þeim fundi, sem birtist í Rétti 1974 og í nokkrum blöðum. Þegar ég reyndi fyrir nokkrum árum að útvega mér frumrit af þessari mynd í bók um Íslenska kommúnista, var það hvergi finnanlegt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. desember 2015.)


Glámskyggni Bandaríkjamanna á Lúðvík

Þótt Bandaríkjamenn reyndust Íslendingum vel í varnarsamstarfinu 1941–1946 og 1951–2006, virðast bandarískir sendimenn á Íslandi iðulega hafa verið glámskyggnir á íslenskar aðstæður. Í skýrslum frá bandaríska sendiráðinu fyrir og í bankahruninu 2008, sem birst hafa á Wikileaks, var til dæmis farið lofsamlegum orðum um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem sat í utanríkisráðherratíð sinni að skrafi við Assad Sýrlandsforseta og aðra svarna óvini Bandaríkjanna. Að sama skapi var Davíð Oddssyni hallmælt, þótt hann hefði reynst traustur vinur sem forsætisráðherra.

Þetta er ekkert nýtt. Í skýrslum bandarískra sendimanna á stríðsárunum var talað um sósíalista sem „háværustu vini okkar“, af því að sósíalistar hlýddu þá dyggilega línunni frá Moskvu um stuðning við Bandaríkin: Það hentaði Stalín, eftir að Hitler réðst á hann. Að sama skapi hlustuðu Bandaríkjamenn eftir stríð um skeið frekar á fylgislitla málvini en á raunsæja stjórnmálaleiðtoga eins og Ólaf Thors.

Eitt dæmið um glámskyggni Bandaríkjamanna var mat þeirra á Lúðvík Jósepssyni, sem var ráðherra 1956–1958 og 1971–1974. Bandaríski sendiherrann, John J. Muccio, skrifaði í skýrslu til utanríkisráðuneytisins 1956, að Lúðvík væri enginn Moskvukommúnisti. En Lúðvík Jósepsson var gallharður kommúnisti alla tíð, þótt hann væri vissulega líka hagsýnn stjórnmálamaður. Hann var í gamla Kommúnistaflokknum, uns hann var lagður niður 1938. Í Sósíalistaflokknum og Alþýðubandalaginu hallaði hann aldrei orði á Kremlverja og var tíður gestur í Moskvu, þar sem hann reyndi eftir megni að auka viðskipti við Ísland.

Þegar Kremlverjar sprengdu kjarnorkusprengjur í tilraunaskyni á Norður-Íshafi 1961, var Lúðvík einn fimm þingmanna, sem ekki vildu fordæma tilraunirnar. Hann sagði við Morgunblaðið 31. október: „Ég óska ekki eftir að ræða þetta mál.“

Í skjölum frá Moskvu kemur fram, að Lúðvík hélt á laun áfram tengslum við ráðamenn eystra, eftir að Alþýðubandalagið samþykkti 1968 að slíta slíkum tengslum. Þegar fréttir bárust 1978 af ofsóknum gegn andófsmönnum í Ráðstjórnarríkjunum, var hann eini íslenski stjórnmálaforinginn, sem ekki vildi fordæma þær. Hann sagði við Vísi 15. júlí: „Ég óska ekki eftir því að segja eitt einasta orð um þetta.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. desember 2015.)


Upp á hverju tekur Gunnar Smári næst?

Nú hefur Gunnar Smári Egilsson tekið að sér að reka Fréttatímann. Ég óska honum auðvitað alls góðs í því, en eigendur síðasta blaðsins, sem hann rak, Nyhedsavisen, töpuðu hátt í sjö milljörðum króna á því. 

Fyrir skömmu vildi Gunnar Smári ganga í Noreg, en hann er hættur við það, líklega eftir fall norsku krónunnar.

Síðan gekk Gunnar Smári í félag múslima á Íslandi, að eigin sögn aðallega til að mótmæla Framsóknarflokknum. Nú er hann genginn úr félaginu.

Hverju skyldi hann taka upp á næst? Og hvenær hættir hann við það? Og á hverjum lendir tapið? Við eigum eflaust eftir að lesa um það allt í blöðunum — þeim, sem eftir verða.


Finnagaldur Jóns Ólafssonar

Í bókinni Appelsínum frá Abkasíu eftir Jón Ólafsson heimspeking, sem út kom 2012, berst talið að Vetrarstríðinu (bls. 285). „Það var stríð Rússa við Finna en þeir fyrrnefndu réðust yfir landamærin haustið 1939 til að ná af Finnum þeim hluta Karelíu sem hafði fallið þeim í skaut 1918 þegar Finnland varð sjálfstætt ríki.“

Hér er flest rangt. Finnland varð í fyrsta lagi ekki sjálfstætt 1918, heldur 6. desember 1917, og viðurkenndu Kremlverjar sjálfstæði þess strax 18. desember það ár. Borgarastríð var háð í landinu á útmánuðum 1918, en í Tartu 1920 sömdu Finnar við Kremlverja um landamæri ríkjanna.

Engin rússnesk svæði (önnur en Petsamo við Íshaf) höfðu í öðru lagi fallið í skaut Finna við fullt sjálfstæði. Kremlverjar viðurkenndu í Tartu-samningnum 1920 að langmestu leyti landamærin frá 1809, þegar Finnland gekk undan Svíum og varð stórhertogadæmi, sem laut Rússakeisara. Rússar höfðu þá skilað Finnlandi aftur svæðum í Kirjálalandi (Karelíu), sem þeir höfðu unnið á öndverðri átjándu öld eftir stríð við Svía. Þessi svæði voru byggð Finnum og hluti af Finnlandi nema tímabilið 1721–1809.

Í griðasáttmála Hitlers og Stalíns í Moskvu 23. ágúst 1939 var hins vegar samþykkt, að Finnland væri á áhrifasvæði Stalíns. Í samningaumleitunum skömmu fyrir Vetrarstríðið höfðu Finnar boðist til að afhenda Rússum svæði í Kirjálalandi, en vísað á bug kröfum Stalíns um herstöðvar í landinu, eins og hann hafði fengið í Eystrasaltslöndum.

Tilgangur Stalíns með Vetrarstríðinu 1939–1940 var ekki að endurheimta nein rússnesk svæði, heldur leggja undir sig Finnland. Ella hefði hann ekki stofnað í stríðsbyrjun leppstjórn finnskra kommúnista í Terijoki. Hún átti að taka völd eftir sigur Rauða hersins. En Finnar vörðust ofureflinu allir sem einn, hraustlega mjög, auk þess sem Stalín óttaðist, að Bretar og Frakkar myndu veita þeim aðstoð. Hertaka Finnlands reyndist of dýr og áhættusöm. Þess vegna ákvað Stalín að leysa leppstjórnina í Terijoki upp, semja vorið 1940 frið í Vetrarstríðinu og fá þau svæði í Kirjálalandi, sem hann taldi sér hernaðarlega mikilvæg. Ella hefði hann farið eins með Finnland og Eystrasaltsríkin: Fyrst var krafist herstöðva, löndin síðan hertekin og þau loks neydd inn í Ráðstjórnarríkin.

Jón Ólafsson má vitaskuld segja söguna frá rússnesku sjónarmiði og skeyta ekki um hið finnska. En hann verður að fara rétt með staðreyndir.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. nóvember 2015.)


Ólafur Ragnar, já! Baldur, nei!

Ólafur Ragnar Grímsson hefur rétt fyrir sér um það, að hryðjuverkin úti í Evrópu verða áreiðanlega til þess, að við hugsum okkar gang. Við hljótum að herða útlendingaeftirlit og landamæravörslu og efla lögregluna. Í því eru ekki fólgin nein mannréttindabrot, heldur mannréttindavernd. Við eigum umfram allt skyldur við okkur sjálf. Við, börn okkar, foreldrar, ættingjar og vinir, viljum ekki eiga það á hættu, þegar við fáum okkur kaffi og kökur í kaffihúsum í Reykjavík eða á Akureyri, að hópur öfgamúslima, sem laumast hafi til landsins, ryðjist skyndilega inn, öllum að óvörum, taki upp vélbyssur sínar og skjóti fjölda fólks til dauðs, svo að blóðið fljóti.

Ólafur Ragnar er óhræddur við að segja það, sem er rétt, að nú er bráð og mikil hætta af öfgamúslimum. Með því er að sjálfsögðu ekki felldur neinn dómur yfir múslimum almennt. Þeir eru eflaust upp til hópa sómafólk, eins og langflestir jarðarbúar. Hinu er ekki að leyna, að íslam er í eðli sínu herskárri trú en til dæmis kristnin, af þeirri einföldu ástæðu, að Múhameð var í senn hermaður og spámaður, en Kristur var spámaður og ekki hermaður. Múhameð fór með her og lagði undir sig lönd. Kristur sagði, að sitt ríki væri ekki af þessum heimi, og hann spurði: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni?“

Baldur Þórhallsson, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og Jean Monnet-prófessor í Háskóla Íslands, gerir hins vegar athugasemdir við ummæli Ólafs Ragnars. Þessar athugasemdir hans eru því miður ekki sóttar í raunhæft mat á aðstæðum. Baldur segir til dæmis: „Forsetinn notar ekki voðaverkin til [að] hugga og stuðla að samstöðu þjóðarinnar heldur hagar orðum sínum á þann hátt að þau sundra og ala á tortryggni í garð múslima.“ Hugga? Það þarf ekki að hugga íslensku þjóðina, því að hún varð ekki fyrir árásinni, heldur franska þjóðin, og þótt við hljótum að láta í ljós samúð með henni, er það líklega ekki á okkar færi að hugga hana. Sundra? Ummæli forsetans sundra ekki þjóðinni, því að hún er sameinuð um vestræn gildi (með örfáum undantekningum): Hér eru sárafáir múslimar og líklega (vonandi) engir öfgamúslimar. Þorri þjóðarinnar er kristinn. Við erum vestræn þjóð, ekki Arabar. Og Ólafur Ragnar ól ekki á neinni tortryggni gegn múslimum með því að benda á hættuna af öfgamúslimum, enda blasir hún við.

Það voru öfgamúslimar, sem frömdu hryðjuverkin í París, ekki vestrænar þjóðir. Og það eru öfgamúslimar, sem bera ábyrgð á þeim, ekki vestrænar þjóðir.

Baldur Þórhallsson notar tækifærið til missmekklegra hugleiðinga um hvatir Ólafs Ragnars Grímssonar til að segja það, sem hann sagði. En það eru ekki allir að ganga einhverra sérstakra erinda. Stundum eru menn aðeins að segja það, sem þeim býr í brjósti, um leið og þeir leyfa sér að skírskota til eigin reynslu. Ólafur Ragnar nýtur langrar reynslu sinnar og víðtækrar þekkingar á alþjóðastjórnmálum, þótt ekki hafi ég alltaf verið honum sammála. En um málflutning Baldurs er það að segja, að hvergi á barnaskapur og hrekkleysi síður við en í alþjóðastjórnmálum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband