Ámælisverð iðjusemi

elinorlipper_internet.jpgStundum verður mér hugsað til orða Árna Magnússonar: „Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gang, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hvorirtveggju nokkuð að iðja.“ Jón Ólafsson heimspekingur er einna iðnastur Íslendinga við að hjálpa erroribus á gang. Bók hans um íslenska sósíalista, Kæru félagar, sem kom út 1999, er mjög óáreiðanleg um staðreyndir eins og nöfn, ártöl og atvik, jafnframt því sem ýmsar ályktanir eru glannalegar.

Á dögunum var ég að grúska í ævi og verkum konu, sem hét Elinor Lipper og sat í ellefu ár í fangabúðum Stalíns. Ég ákvað að að skoða, hvort Jón Ólafsson segði eitthvað um Lipper í nýlegri bók um svipað efni, Appelsínum frá Abkasíu. Svo reyndist vera. Jón skrifar (bls. 251): „Árið 1949 kom út bókin 11 ár í sovéskum fangabúðum eftir Elinor Lipper. Lipper kom til Moskvu 27 ára gömul árið 1937 í stutta heimsókn.“

Í þessum tveimur stuttu setningum eru þrjár villur:

Bók Lippers kom fyrst út á þýsku snemma árs 1950 og í enskri þýðingu á Bretlandi það ár, en í Bandaríkjunum árið eftir.

Í öðru lagi var Lipper að verða 25 ára, þegar hún kom til Moskvu vorið 1937. Hún var fædd í júlí 1912.

Í þriðja lagi fór Lipper ekki til Moskvu í stutta heimsókn, heldur til að vinna í þágu byltingarinnar. Hún bjó á Hotel Lux og starfaði ásamt eiginmanni sínum, Konrad Vetterli, í bókaútgáfu erlendra bóka undir dulnefninu Ruth Zander.

Í heimildaskrá er getið bókarinnar Elf Jahre in Sowjetischen Gefängnisses und Lagern eftir Lipper, Chicago 1950, hjá Oprecht. Hið rétta er, að þýska bókin kom út hjá Oprecht í Zürich. Hin bandaríska þýðing kom út hjá Henry Regnery í Chicago ári síðar.

Jón Ólafsson minnist síðan ekki á, að bæði Tíminn og Vísir birtu útdrætti úr hinni stórmerkilegu bók Lippers 1951 og 1953.  

„Hafa svo hvorirtveggju nokkuð að iðja.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. nóvember 2015. Myndina fékk ég af þjóðskjalasafni Sviss ásamt ýmsum skjölum um Lipper.)


Gamansemi á Rotary-fundi

domedsteingrherm.jpgÉg var ræðumaður á „sviðamessu“ Rotary-klúbbs í Kópavogi, sem haldin var í Hernámssetrinu í Hvalfirði á dögunum. Þar sagði ég frá því, þegar Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn þriðjudaginn 30. apríl 1991. Tók hann við af Steingrími Hermannssyni, sem hafði verið forsætisráðherra samtals í sjö ár. Við fórum nokkur á Hótel Holt um kvöldið til að halda upp á það. Daginn eftir var frídagur, 1. maí. (Sparaðist raunar stórfé við það, að hin fjölmenna aðstoðarmannasveit ráðherra vann ekki fram yfir mánaðamót.)

Fimmtudaginn 2. maí var hringt í forsætisráðuneytið: „Er Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra við?“ Símastúlkan svaraði: „Nei, og hann er ekki lengur forsætisráðherra.“ Föstudaginn 3. maí var aftur hringt: „Er Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra við?“ Enn svaraði símastúlkan: „Nei, og hann er nú ekki lengur forsætisráðherra.“

Leið nú helgin. Mánudaginn 6. maí var aftur hringt í ráðuneytið: „Er Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra við?“ Símastúlkan svaraði enn og aftur: „Nei, og hann er ekki lengur forsætisráðherra.“ Hún bætti við: „Ég hef sagt yður þetta þrisvar, því að ég þekki röddina aftur. Þér hafið nú hringt hingað þrisvar: En ég segið yður aftur: Steingrímur Hermannsson er ekki lengur forsætisráðherra!“

Maðurinn svaraði: „Já, en mér finnst bara svo gaman að heyra það.“

[Hér er síðan upptaka af fundi á dögunum um valdatíð Davíðs, en sumir á Rotary-samkomunni höfðu verið þar og minntust á hann í ræðum sínum:]


Varð forstjóri auðsælasta vogunarsjóðs Rússlands

Bandaríski fjárfestirinn Bill Browder var forstjóri eins auðsælasta vogunarsjóðs Rússlands, en afi hans hafði verið formaður kommúnistaflokks Bandaríkjanna. Síðan lenti Browder í átökum við Pútín og lýsir þeim í bókinni Eftirlýstur (Red notice), sem er nýlega komin út á íslensku. Browder heldur fyrirlestur í hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 20. nóvember kl. 12.


Hvað varð um Rússagullið?

6_communisthousereykjavik.jpgÉg hef birt í Vísbendingu útreikninga á því, að Rússagullið frá stríðslokum og til 1972 hafi verið 471 hundrað milljónir króna á núvirði, þegar tekið er líka tillit til þess, að framlög voru leynileg og því skattfrjáls.

Hvert rann þetta Rússagull? Sósíalistaflokkurinn og hliðarsamtök hans áttu að minnsta kosti fjögur stór hús í Reykjavík (og eflaust einhverjar smærri eignir þar og annars staðar).

Fasteignamat þeirra fyrir árið 2016 er þetta:

Skólavörðustígur 19 – 250.300.000 kr.

Tjarnargata 20 – 81.400.000 kr.

Þingholtsstræti 27 – 420.850.000 kr.

Laugavegur 18 – 366.430.000 kr.

Samtals er þetta 1.118.980.000, um einn milljarður og tvö hundruð milljónir króna á núvirði.

Er líklegt, að söfnun meðal félaga hafi nægt fyrir þessum húsum, eins og sósíalistar sögðu sjálfir? Samkvæmt félagatali í Sósíalistaflokknum frá öndverðum sjötta áratug voru félagar eitthvað um 1.400 talsins. Hugsanlegt er, en ekki líklegt, að þeir hafi hver og einn lagt sem svarar tveimur mánaðarlaunum sínum að núvirði í húsin. Líklegra er, að Rússagullið hafi að mestu leyti farið í þessi fjögur hús.

sg-586-laugavegur-18.jpgÞau voru síðan seld. Eftir það hefur verið bætt við húsakosti að Þingholtsstræti 27, svo að huganlega mætti lækka heildarvirðið um hundrað milljónir, en það ræður engum úrslitum. Félag utan um bókafélagið Mál og menningu eignaðist andvirði tveggja húsanna, Þingholtsstrætis 27 og Laugavegs 18, en svokallaður Sigfúsarsjóður andvirði hinna tveggja, Skólavörðustígs 19 og Tjarnargötu 20. Þessir aðilar starfa enn, en leynd hvílir yfir þeim. Þó virðist félag Máls og menningar eiga tæpan helming í Forlaginu og Sigfúsarsjóður fasteign í Reykjavík, sem hann leigir Samfylkingunni. Fróðlegt væri að vita meira um það.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. nóvember 2015. Myndirnar eru af tveimur húsanna, Skólavörðustíg 19 og Laugavegi 18.)


Hlutur Kristjáns konungs X. í Íslandssögunni

10_king_christian_x_visiting_the_student_camp_at_thingvellir_iceland.jpgÉg skrapp síðdegis á laugardag, 14. nóvember 2015, á ráðstefnu í Háskóla Íslands um samskipti Dana og Íslendinga, og fór hún fram á dönsku. Borgþór Kjærnested hélt erindi um dagbækur Kristjáns X., konungs Danmerkur og Íslands, en þær hélt hann um samskipti sín við Íslendinga. Auður Hauksdóttir talaði meðal annars um hugmyndir Dana um íslenska tungu. Bo Lidegaard, sagnfræðingur og ritstjóri Politiken, lýsti afstöðu Dana til sjálfstæðis Íslendinga.

Margt var nýtt í þessum erindum. Þegar ég hlustaði á Borgþór, sannfærðist ég um það, sem þeir Jón Krabbe, Bjarni Benediktsson og Sveinn Björnsson sögðu allir beint og óbeint í endurminningum sínum eða ritgerðum, að konungur hefði verið fjarlægur Íslendingum og jafnvel óvinsamlegur. (Kristmann Guðmundsson sagði hið sama í endurminningum sínum. Konungur sagði honum, að hann myndi ekki vilja lifa þar norður frá.) Borgþór vildi hins vegar auðheyrilega gera hlut konungs sem bestan.

Ég spurði Borgþór tveggja spurninga. Þegar Íslendingar lýstu yfir því 1928 (og aftur 1937), að þeir hygðust segja upp sambandslagasáttmálanum, þegar hann rynni út 1943, sögðu þeir ekkert um konungssambandið. Af hverju tók Kristján X. það svo óstinnt upp (hann hugleiddi 1928 að segja af sér konungstign á Íslandi samkvæmt upplýsingum Borgþórs)? Og konungur kom oft ókurteislega fram við Íslendinga, til dæmis þegar hann skálmaði um í hermannabúningi á Alþingishátíðinni 1930 þrátt fyrir óopinber tilmæli í aðra veru. Hvað væri um það að segja? Borgþór staðfesti, að aðeins var talað um sambandslagasáttmálann 1928, en gaf engar frekari skýringar á viðbrögðum konungs. Hann sagði síðan um einkennisbúninginn, að í Danmörku hefði konungur við ýmis tækifæri komið fram í hermannabúningi, og hann hefði haldið sama sið á Íslandi.  

Þegar ég hlustaði á Auði, flaug mér í hug, að danskir menntamenn ættu líklega meira í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en við hefðum talið, því að á öndverðri 19. öld báru þeir mikla virðingu fyrir fornmenningu Íslendinga og tungu, til dæmis þeir Rask og Oehlenschläger. Getur ekki verið, að íslensku stúdentarnir í Kaupmannahöfn hafi fyllst stolti yfir þessum áhuga og virðingu, það hafi auðveldað þeim að öðlast skýrari sjálfsvitund?

Þegar ég hlustaði á Lidegaard, velti ég því fyrir mér, hvort við hefðum ekki horft fram hjá hlut danska sendiráðsins í Washington í lýðveldisstofnuninni, en Lidegaard vakti athygli á henni og kvað hafa verið gott á milli Henriks Kauffmanns, danska sendiherrans, og Thors Thors, ræðismanns Íslands í New York. Ég veit, að aðrir fræðimenn hafa haft aðgang að dagbókum Carls A. C. Bruns, sem var hægri hönd danska sendiherrans, og Thors Thors. Fróðlegt verður að heyra meira um þetta. (Myndin að ofan er af Kristjáni X. á Alþingishátíðinni.)


Skemmtilegur fundur um valdatíð Davíðs

Við Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra Vinstri-grænna, og Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skiptumst á skoðunum um valdatíð Davíðs Oddssonar á fundi Politica, félags stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands, fimmtudagskvöldið 12. nóvember. Troðfullt var í stórum fundarsal, og komust færri að en vildu. Ég benti á, að Davíð hefði verið óvenju sigursæll stjórnmálamaður: Hann hefði aukið fylgi sitt sem borgarstjóri upp í rösk 60% árið 1990 og síðan verið lengst allra manna samtals og samfleytt forsætisráðherra. Tímamót hefðu orðið, þegar hann varð forsætisráðherra 1991. Sjóðasukki hefði verið hætt, stöðugleika komið á í peningamálum og ríkisfjármálum, lífeyrissjóðir efldir, réttindi fólks tryggð með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum og landið verið opnað með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar Davíð hefði vikið sem forsætisráðherra 2004, hefði skuldasöfnun bankanna ekki verið hafin. Ísland árið 2004 hefði verið gott land. Davíð hefði verið gagnrýndur fyrir stuðning Íslands við Íraksstríðið, en þar hefði verið um að ræða stuðningsyfirlýsingu við ákvörðun, sem aðrir hefðu tekið og Ísland ekki getað breytt neinu um. Hins vegar hefði Ísland getað stöðvað loftárásir Atlantshafsbandalagsins á Líbíu 2011, því að öll aðildarríki bandalagsins hefðu neitunarvald um slíkar aðgerðir, en það hefði vinstri stjórn þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ekki gert. Ég benti einnig á, að sala banka hefði hafist í tíð vinstri stjórnarinnar 1988–1991, þegar Íslandsbanki var stofnaður. Ríkisendurskoðun hefði samið tvær skýrslur um sölu bankanna 1999–2002 og ekkert stórvægilegt fundið athugavert.

Ögmundur Jónasson sagðist vera af sömu kynslóð í stjórnmálum og Davíð, enda væru aðeins nokkrir mánuðir á milli þeirra í aldri. Þegar þeir hefðu hafið afskipti af stjórnmálum um og eftir 1970, hefði verið gróska á vinstri vængnum, en ládeyða hægra megin. Þetta hefði snúist við, þegar Davíð og félagar hans í Eimreiðarhópnum hefðu komið til sögu. Þeir hefðu flutt inn nýjar hugmyndir, skírskotað til Reagans og Thatchers, vitnað í Hayek, Friedman og Buchanan, á meðan vinstri menn hefðu staðnað. Davíð og félagar hans hefðu rofið þá samstöðu um frumgildi eins og velferð og samkennd, sem hefði verið almenn á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar. Þeir hefðu stuðlað að ójafnari tekjudreifingu og tekið efnisleg gæði fram yfir andleg.

Vilhjálmur Egilsson rifjaði upp, hvernig ástandið var, á meðan verðbólga geisaði á Íslandi fram undir lok níunda áratugarins og atvinnulífið var reyrt í viðjar. Ein ástæðan til þess, að nauðsynlegt hefði verið að selja ríkisbankana tvo upp úr aldamótum 2000 hefði einmitt verið, að hallað hefði á þá í samkeppni við hinn spræka ríkisbanka, sem myndaður hefði verið 1990. Enginn vafi væri á því, að rekstur margra fyrirtækja væri miklu betur kominn í höndum einkaaðila en embættismanna ríkisins. Vilhjálmur kvað hafa verið þægilegt að vinna með Davíð Oddssyni á þingi. Hann hefði verið afskiptalítill um störf þingmanna, en fljótur til ákvarðana og menn treyst orðum hans.

Eftir framsöguerindin voru umræður, og tóku ýmsir til máls. Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, kvaddi sér hljóðs og sagðist geta borið um það, að lítilmagninn hefði ætíð átt málsvara og stuðningsmann í Davíð Oddssyni. Guðni kvað þá Davíð hafa verið prýðilega samstarfsmenn í ríkisstjórn og þeir hefðu með tímanum orðið góðir vinir, en hann skildi ekki, hvers vegna Davíð hefði horfið frá stefnu Sjálfstæðisflokksins um tvíhliða viðræður við Evrópusambandið í stað aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu og frá hugmyndum sínum um dreifða eignaraðild bankanna að sölu þeirra til „kjölfestufjárfesta“. Hann teldi hins vegar, að Davíð hefði með forgöngu sinni í Seðlabankanum bjargað því, sem bjargað varð í bankahruninu. Hann hefði beitt sér fyrir þeirri lausn, sem varð ofan á og reyndist farsæl, að skilja á milli hins innlenda hluta bankakerfisins og hins erlenda. Af þessu tilefni lét Vilhjálmur Egilsson í ljós mikla undrun á því, að Davíð hefði verið flæmdur úr Seðlabankanum. Þótt hann hefði ekki alltaf verið sammála Davíð um vaxtastefnu bankans, hefði hann reynst vel sem seðlabankastjóri.

Glærum mínum á fundinum má hlaða niður héðan.

Og hér er upptaka af fundinum:


Valdatíð Davíðs

domedclintonheima.jpgPolitica, félag stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands, heldur málfund fimmtudaginn 12. nóvember kl. 19.30 í stofu 101 í Odda, húsi félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, um VALDATÍÐ DAVÍÐS. Framsögumennirnir erum við Vilhjálmur Egilsson, alþingismaður 1991–2003, og Ögmundur Jónasson, sem hefur setið á þingi frá 1995 og var ráðherra 2009–2013 (með hléi vegna Icesave-málsins).

Það er margt um valdatíð Davíðs að segja, þótt auðvitað komi hann ekki einn við sögu. En merkilegt er, að hann jók fylgi Sjálfstæðisflokkinn í þeim þrennum borgarstjórnarkosningum, 1982, 1986 og 1990, þegar hann var forystumaður hans í Reykjavíkurborg, óháð því, hvort Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn eða ekki. Og ekki er síður merkilegt, að hann hefur lengst allra Íslendinga verið forsætisráðherra samfleytt og samtals, frá vori 1991 til hausts 2004. Ég mun bregða ýmsum forvitnilegum tölum og myndum á skjá, þótt því miður sé mér skammtaður naumur tími, ekki nema 10 mínútur.


Hverjir leyndust á bak við nöfnin?

donald.jpgÁrin 1954–1956 starfaði Donald Nuechterlein í upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna á Íslandi. Seinna skrifaði hann doktorsritgerð um íslensk utanríkismál, Ísland: Tregur bandamaður (Iceland, Reluctant Ally), 1961. En 1997 gaf Nuechterlein einnig út heimildaskáldsögu, þar sem þrír Íslendingar koma fyrir undir dulnefnum, Kaldastríðsslóðir (A Cold War Odyssey). Kallar Nuechterlein þar sjálfan sig David Bruening.

Ekki er sjálfgefið, hver einn Íslendingurinn í sögunni var, Jon Eliasson, ritstjóri Tímans, því að þeir voru tveir á þessum tíma, Haukur Snorrason og Þórarinn Þórarinsson. Eftir lýsingunni að dæma hefur þetta þó frekar verið Haukur. Voru ritstjórinn og upplýsingafulltrúinn góðkunningjar, þótt Tíminn gagnrýndi óspart umsvif Bandaríkjahers á Íslandi.

Auðveldara er að sjá, hverjum Nuechterlein gefur dulnefnið Jon Magnusson, en sá skyldi taka viðtal við bandaríska rithöfundinn William Faulkner, sem kom hingað á vegum upplýsingaþjónustunnar. Hann var Matthías Johannessen, og birtist viðtal hans við Faulkner í Morgunblaðinu 23. október 1955. „Er ekki betra að hafa bandarískan her hér í nafni frelsisins en rússneskan í nafni einræðis og ofbeldis, eins og á sér til dæmis stað í Eystrasaltslöndunum?“ spurði Faulkner.

mynd_1272365.jpgÞriðji Íslendingurinn er líka auðþekkjanlegur, Helgi Jonasson. Hann var Gylfi Þ. Gíslason. Hann sótti eitt sinn boð Nuechterlein-hjónanna, og sagðist kona gestgjafans hafa áhuga á skáldverkum Laxness. Nokkrum dögum síðar var Gylfi mættur heim til þeirra með enska þýðingu á Sölku Völku. Þegar sendiráðsmönnum barst til eyrna, að Alþýðuflokkurinn ætlaði að ganga til samstarfs við Framsóknarflokkinn og reka varnarliðið úr landi, var Nuechterlein beðinn að hafa samband við Gylfa til að komast að hinu sanna. Gylfi vildi ekki sjást með honum á veitingastað og bauð honum þess í stað heim til sín. Þar staðfesti hann, að þessi orðrómur væri réttur. Nú væru friðartímar og ekki lengur þörf á bandaríska hernum. Gylfi sýndi gesti sínum hróðugur uppdrátt af Íslandi og benti á þau kjördæmi, þar sem sameiginlegur frambjóðandi Framsóknarflokks og Alþýðuflokks gæti fellt þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Furðuðu Bandaríkjamenn sig á því, hversu opinskár Gylfi var. Muccio sendiherra (Monroe í sögunni) hreytti út úr sér við Nuechterlein: „Hann vill hrekja okkur burt á þeirri fáránlegu forsendu, að Ísland þurfi ekki lengur neinar varnir.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. nóvember 2015.)


Gamall Grænfriðungur talar um loftslagsmál

Hér er fróðlegt myndband með ræðu eftir Patrick Moore, sem var á sínum tíma í forystusveit Grænfriðunga. Hann fer skynsamlega og hófsamlega yfir loftslagsmál.

Sköpunargleði í stað sníkjulífs

Ég greini og gagnrýni siðferðilega vörn Ayns Rands fyrir kapítalismanum í fyrirlestri fimmtudaginn 5. nóvember kl. 16.30 í Odda í Háskóla Íslands, stofu O-101. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Rand er áhrifamesti kvenheimspekingur allra tíma, og hafa bækur hennar selst í þrjátíu milljónum eintaka. Þrjár skáldsögur hennar hafa komið út á íslensku, Kíra Argúnova, Uppsprettan og Undirstaðan. 

Ég spyr: Hver er munurinn á sjálfselsku og ágirnd? Er samanburður Rands á afburðamönnum og afætum eðlilegur? Hvaða íslensku frumkvöðlar svara best til lýsingar Rands á skapandi einstaklingum? Þarf ást ætíð að vera verðskulduð, eins og Rand heldur fram? Er ekki til neitt, sem heitir mannleg samábyrgð? Hver er munurinn á málsvörn Rands fyrir kapítalismanum og hagfræðinganna Hayeks og Friedmans?

Hér er brot úr málsvörn Rands fyrir sjálfstæðum einstaklingum (og flytur hana Gary Cooper):


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband